144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég heyri að við þingmaðurinn deilum skoðunum að þessu leyti til. Annað mál sem hann kom inn á er náttúrupassinn eða uppbygging ferðamannastaða og það undarlega ferli sem hefur verið í gangi í því öllu, hvernig lágum upphæðum var úthlutað á síðasta ári og svo samþykktar hærri í fjáraukalögum. Hv. þingmaðurinn minntist á nýsjálenska kerfið, sem hann kallaði svo, eða nýsjálensku leiðina og ég verð að segja eins og er að ég hef lengi verið hrifin af þeirri leið sjálf og finnst að það gæti verið sniðug leið að fara. Ég held að við höfum bæði nefnt það fyrr í umræðu, en þeir sem ráða hafa ekki verið tilbúnir eða spenntir fyrir því að hugsa fyrir því. Mér fannst í máli þingmannsins að það gæti verið að hann héldi að hæstv. ráðherra ímyndaði sér að þetta yrði samþykkt fyrir jól þannig að það væri hægt að samþykkja inn á fjárlög einhverja peninga út frá þessum náttúrupassa og þess vegna yrðu til peningar í Framkvæmdasjóð ferðamanna. Er þetta rétt skilið hjá mér?

Hvernig ímyndar þingmaðurinn sér að ríkisstjórnin ætli að fara að ef það er ekki, ætla þeir þá að gera eins og í fyrra og koma um mitt næsta ár og segja: Ríkisstjórnin er öll samþykk þessu þannig að við gerum það sem við viljum og svo höfum við svo mikinn meiri hluta á Alþingi að við getum ákveðið allt yfir ríkisstjórnarborðið sem okkur hentar.