144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu flutta hér í kuldanum í þingsal. Ég staldra við það sem hv. þingmaður sagði um Ríkisútvarpið og það ósætti sem virðist vera viðloðandi þá stofnun. Hv. þingmaður nefndi það í ræðu sinni sem ég nefndi líka í ræðu minni fyrr í kvöld, að það er auðvitað ekki við hæfi að fólk sé að rugla saman og blanda saman fjárveitingum til Ríkisútvarpsins annars vegar og skoðunum sínum á málflutningi sem það heyrir eða sér í Ríkisútvarpinu. En við erum eigi að síður, þótt ég sé hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þetta sé ekki boðleg umræða, í þeirri stöðu að okkur virðist ekki hafa lánast að ná sátt um almannaútvarpið, almannaútvarp eins og við þekkjum það alls staðar í Evrópu, sem allir sem þekkja til fjölmiðlaheimsins og eru fræðimenn á því sviði eru sannfærðir um að sé mjög mikilvægt fyrir fjölmiðlamarkað almennt, að hafa öflugt og gott almannaútvarp. Hvaða leiðir sér hv. þingmaður til þess að okkur lánist að ná sátt?

Nú var á síðasta kjörtímabili unnin talsverð vinna. Ég skipaði hóp fagfólks, ef við getum orðað það þannig, fólks sem kemur að heimi menningar, fræðimennsku og öðru, til þess að leggja drög að því að skilgreina hlutverk almannaútvarpsins í lögum, sem voru samþykkt hér með atkvæðum allra nema fulltrúa Sjálfstæðisflokksins árið 2013. Það virðist þó ekki hafa dugað til.

Ég velti því fyrir mér hvernig við getum komist áfram þannig að við þurfum ekki að eiga þessa umræðu hér allt of oft, umræðu sem mér finnst ekki í lagi en við þurfum einhvern veginn að komast út úr. Sér hv. þingmaður leiðir til þess?