144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:52]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við þurfum fyrst og síðast að ná meiri hluta eftir næstu kosningar til þess að þetta breytist. Ég held að það sé margt í núverandi ríkisstjórn sem boðar einhvers konar afturhvarf um 30–40 ár, það er eins og menn vilji draga fram matseðil þess tíma og hafa hann fyrir framan sig á sem flestum sviðum. Ég nefni sem dæmi samsetningu ríkisstjórna út frá kynjahlutföllum. Ég nefni sem dæmi pólitísk afskipti af Ríkisútvarpinu. Afturhvarf frá þeirri breytingu sem til góðs var gerð á síðasta kjörtímabili um að hverfa frá því að vera með pólitískt skipað útvarpsráð, en það var eitt af fyrstu verkum núverandi ríkisstjórnar að fara aftur inn í það umhverfi. Og svo þessi ímyndaða hægrimennska þar sem menn setja sig á þann stað í pólitíkinni að það sé hlutverk þeirra að vera á móti ríkisútvarpi, eins og það sé skilgreining á einhverri pólitískri staðsetningu, þrátt fyrir að allt annað sem þeir geri sé þveröfugt við það sem flokkast geti sem hægrimennska. Ívilnanir í atvinnulífi til stóriðjufyrirtækja, stórtækar stórkarlalegar skuldaleiðréttingar, útdæling á fjármagni úr opinberum sjóðum til þess að bera ábyrgð á skuldum einstaklinga, ekkert af þessu er tengt hugmyndafræðilega við það að vera hægri maður. Það virðist duga sumum að vera á móti Ríkisútvarpinu og að vilja geta selt vín við hliðina á mjólk til þess að telja sig hægri mann, á meðan allt annað er einhvers staðar allt annars staðar og tilheyrir öðrum (Forseti hringir.) veruleika og það miklu verri. Við þurfum bara að útskýra þetta fyrir fólki. Það er leiðin.