144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er vissulega svo að þegar viðhorf almennings til Ríkisútvarpsins er mælt, til að mynda í skoðanakönnunum, er yfirgnæfandi stuðningur við það að hafa hér almannaútvarp og fólk er reiðubúið að greiða fyrir það. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum í þessari umræðu að leiða fram öll þau sjónarmið, því að það er mjög mikilvægt að ekki verði staðið við áform um að lækka útvarpsgjaldið og því verði haldið óbreyttu. Það er ekki hátt, hvorki í krónutölu né í alþjóðlegum samanburði og ef við tökum höfðatöluna inn í þetta er það alls ekki hátt. Það er í raun og veru ótrúlegt hversu mikilli starfsemi er hægt að halda uppi með það útvarpsgjald sem við höfum, því að við gerum um leið ríkar kröfur.

Aðeins að öðru máli sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni og varði verulegum tíma í að ræða sem er uppbygging ferðamannastða og vernd friðlýstra svæða, gríðarlega mikilvægt málefni sem við sjáum því miður ekki neina lausn á í þessu fjárlagafrumvarpi. Eins og hv. þingmaður benti á er það líklega af því að fyrir liggja hugmyndir um náttúrupassa. Ég hjó líka eftir því að hv. þingmaður efaðist, enda verður það frumvarp væntanlega ekki að lögum hér fyrir áramót í ljósi þess að það er ekki einu sinni búið að leggja það fram fyrir þingið.

En varðandi þetta fyrirkomulag almennt snúast áhyggjur mínar um það að ég tel að því miður stefni allt í að við munum eyða mjög miklum tíma í að ræða fyrirkomulag sem nánast allir sem eiga hlut að máli og eru málinu tengdir virðast leggjast gegn. Þá hefur maður að sjálfsögðu áhyggjur af því að á meðan haldi ástandinu áfram að hnigna á friðlýstum svæðum og ferðamannastöðum. Það þarf að leiða þessa umræðu á einhvern betri stað. Aðgerðir fyrri ríkisstjórna mega ekki verða til þess að horft verði hjá einfaldari leiðum. Mig langar að fá sjónarmið hv. þingmanns í þeim efnum, hvaða leiðir sé best að fara til þess að styrkja innviði, bæði friðlýstra svæða og ferðamannastaða.