144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Það var einmitt vegna þess sem hann var að enda við að segja að hann hefði ekki komist í sem mig langaði að byrja á að spyrja hann um — það er þessi, að því er virðist vera, skortur á stefnu og framtíðarsýn í öllum málum er varða ferðamálin, meðal annars Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Við höfum haft fregnir af náttúrupassafrumvarpinu margumrædda, höfum auðvitað ekki séð það en það virðist ekki falla í eins góðan jarðveg og þegar byrjað var að tala um það.

Við gagnrýndum það mjög í fyrra hve litlir fjármunir væru settir í framkvæmdasjóðinn. Aðeins var úr því bætt eftir að við í minni hlutanum höfðum rætt um það. Nú er gert ráð fyrir litlum fjármunum líka. Mig langar að spyrja þingmanninn — ef þessi náttúrupassi verður að lögum, sem maður sér ekki alveg fyrir sér að geti orðið bara sisvona, því að málið kemur ekki fram fyrir jólin — hvaða sýn liggi að baki þegar ljóst er að sáralitlir peningar eru settir í þennan sjóð fyrir næsta ár og ekki gert ráð fyrir öðrum fjármunum, af því að ef náttúrupassafrumvarpið gengur í gegn að vori kemur væntanlega ekki neitt annað inn.

Mig langaði líka aðeins að spyrja hv. þingmann — hann talaði um að menn virtu ekki að samninga á vinnumarkaði; lögin sem við höfum sjálf samið — hvað honum finnist um það sem meiri hluti fjárlaganefndar setur hér sem skilyrði, bæði er varðar framlag Isavia og eins varðandi það sem kemur fram gagnvart skilyrðum á fjárframlögum RÚV, (Forseti hringir.) hvort hann telji að það sé tækt að leggja til framlög sem eigi svo að taka á miðju ári ef ríkisstjórnarreksturinn gengur ekki samkvæmt óskum.