144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:49]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að þakka hv. þingmanni fyrir góða og skörulega ræðu og mjög fróðlega.

Sá þingmaður sem hér stendur deilir með hv. þingmanni áhuga á og áhyggjum af húsnæðiskerfinu. Við búum við mikla óvissu í húsnæðismálum eftir þær breytingar sem urðu við hrunið; með gríðarlegri hækkun á skuldum þeirra sem búa í sérbýli, séreign, og hækkun á leigu, í samhengi við hækkaðar skuldir, hjá leigjendum. Í þessu útspili ríkisstjórnarinnar til skuldaleiðréttinga, til þeirra sem búa í séreignakerfinu en ekki til hinna, eru allar líkur á að við sjáum fram á hækkun á húsnæðisverði, alla vega hér á höfuðborgarsvæðinu, sem mun aftur bitna á þessum sömu leigjendum og þeim sem verða út undan í þessari aðgerð.

Það er því engin spurning að aukin þörf verður fyrir félagslegt húsnæði, bæði vegna þeirra sem eru utan séreignakerfisins í dag en ekki síður vegna þeirra sem eru ungir og hefðu kannski komist inn í séreignakerfið áður en eiga litla von til þess í dag.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann ögn meira út í það sem hann sagði hér um félagslegt húsnæði og hvaða merki hann sjái, í fjárlagafrumvarpinu og tillögum ríkisstjórnarinnar, um að verið sé að taka á þessum málum. Ég kem kannski betur inn á það í seinna andsvari.