144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:54]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir góð svör. Ég velti því fyrir mér eins og hann hver framtíðarsýnin er af því eins og hann orðaði það svo vel þá sést ekki á hana í fjárlagafrumvarpinu núna.

Ég hef einnig áhuga á því að heyra betur hvernig hv. þingmaður metur stöðu Íbúðalánasjóðs sem hann tæpti aðeins á í ræðu sinni. Það er mikið áhyggjuefni og manni sýnist ekki að tekið sé mjög raunsætt á því í frumvarpinu.

Mig langaði líka til að heyra álit hv. þingmanns á þeirri breytingu sem nú er á rétti til atvinnuleysisbóta þar sem sá tími er enn styttur sem þeir sem eru án atvinnu njóta atvinnuleysisbóta. Þó hefur tryggingagjaldið ekki verið lækkað þannig að verið er að rukka af atvinnulífinu grundvöll atvinnuleysisbótanna en minnka það sem fer út af þeim. Það er þá bæði verið að taka rétt af þeim sem hafa unnið sér rétt til atvinnuleysisbóta, en einnig verið að velta auknum kostnaði yfir á hina félagslegu hlið og bætur sem sveitarfélög hafa verið að veita. Við vitum að sá kostnaður hefur margfaldast eftir hrun hjá sveitarfélögunum. Nú eru allar líkur á því að bæti enn í.

Mig langaði að heyra í hv. þingmanni, sem fyrrverandi ráðherra félagsmála, hvernig hann lítur á þessa breytingu.