144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:58]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru nokkuð sérstakar aðstæður að koma óvænt og tímabundið til starfa á Alþingi þegar mikilvægustu þingmálin eru til umfjöllunar og afgreiðslu, sjálf fjárlög komandi árs. Aðstæður eru sérstakar að því leyti að ég hef ekki tekið þátt í undirbúningi og umfjöllun og umræðu við fjárlagagerðina en ég hef hins vegar upplifað umræðuna utan frá í fjölmiðlum og heyrt álit og skoðanir fjölmargra þeirra sem málið varðar, hvort heldur er á vinnustöðum eða heimilum.

Landsmenn fylgjast vel með og þeir hafa skýrar skoðanir á því hvað eru forgangsmál í samfélaginu hverju sinni. Vissulega eru skoðanir oft skiptar en ég leyfi mér að fullyrða að meiri samstaða er í dag meðal þjóðarinnar en oftast áður um forgangsröðina. Forgangur um uppbyggingu velferðarsamfélagsins er það sem er efst á lista almennings í dag.

Hér á undan hefur verið minnst nokkuð á húsnæðismál og ég vil gjarnan nota stóran hluta af minni ræðu til að fara yfir þau mál vegna þess að húsnæðismál eru eitt af stærstu velferðarmálum samfélagsins hverju sinni og trúlega aldrei jafn stór hluti þess að geta kallað okkur velferðarsamfélag eins og við upplifum hlutina núna á síðustu árum eftir hrunið. Ég ætla ekki að ræða sérstaklega stóru jólagjöfina til sértæks hóps skráðra íbúðaeigenda heldur stöðu hinna sem eiga ekki þak yfir höfuðið og eru á leigumarkaði. Það er ekki lítill hluti þjóðarinnar heldur sístækkandi hópur fólks á öllum aldri og í dag liðlega fjórðungur allra landsmanna. Ef einhverjir einstakir hópar á íbúðamarkaði fóru illa út úr hruninu og eftirmálum þess þá var það ekki síst sá stóri hópur sem er leigjendur.

Húsaleigubætur hafa skipt miklu og eru mikilvægt tæki til að styrkja stöðu leigjenda en staðan er sú að húsaleigubætur ná eingöngu til þeirra sem eru í lægstu tekjuþrepunum og þar af leiðandi til sífellt minni hluta þeirra sem eru á leigumarkaði. Þetta hefur legið skýrt fyrir um langt árabil. Og til einföldunar og skýringar á því hvernig þessi staða hefur birst í raunveruleikanum er rétt að nefna það einfalda dæmi sem er byggt á skýrum staðreyndum að fjölskylda með meðaltekjur sem fjárfesti í íbúðarhúsnæði um og fyrir síðustu aldamót var á einum áratug búin að fá í endurgreiðslur og stuðning í gegnum vaxtabótakerfið hartnær 7,5–8 millj. kr. Ef sama fjölskylda með sömu meðaltekjur hefði hins vegar verið á leigumarkaði hefði hún ekki fengið eina einustu krónu í húsnæðisbætur eða húsaleigubætur. Það er nákvæmlega þannig sem mismunurinn hefur birst landsmönnum varðandi stöðuna á húsnæðismarkaði. Og það er ekki bara sú mismunun sem við höfum upplifað og gert okkur grein fyrir og horft til leiða til að jafna, heldur er núna með þeim tillögum sem birtast í fjárlagafrumvarpi komandi árs verið að auka enn frekar á þann mismun með því að færa ákveðnum hluta þjóðarinnar sérstakar réttlætisbætur meðan hinir sitja með ekki neitt í höndunum eins og húsaleigubótakerfið hefur virkað gagnvart stærstum hluta þeirra sem eru á leigumarkaði.

Við yfirferð og heildarúttekt á stöðu húsnæðismála á síðastliðnu kjörtímabili var meðal annars farið vandlega yfir stöðu leigjenda. Mótaðar voru róttækar og skynsamlegar tillögur um að jafna að fullu stöðuna á íbúðamarkaði óháð búsetuformi. Þetta yrði gert með því að sameina vaxtabótakerfið og húsaleigubætur í nýtt kerfi húsnæðisbóta. Allir fulltrúar hagsmunaaðila í landinu sem málið snerti komu að undirbúningi tillagnanna og voru fyllilega sammála um allar lykilforsendur og útfærslur að hinu nýja húsnæðisbótakerfi, kerfi sem yrði fyrst og síðast umtalsverð réttarbót fyrir leigjendur þar sem staða þeirra yrði allt önnur en áður og mun breiðari tekjuhópur ætti rétt á bótum en nú gildir varðandi húsaleigubætur. Þessar róttæku tillögur voru kynntar á vordögum 2012. Í framhaldi af því var ákveðið að stíga fyrstu mikilvægu skrefin í innleiðingu húsnæðisbótakerfis með því að lækka lágmarksviðmið til húsaleigubóta í ákveðnum áföngum, í ársbyrjun 2013 og aftur um mitt ár 2013. Þetta var nauðsynleg aðlögun til að geta sameinað þessi tvö kerfi vaxtabóta og húsaleigubóta.

Tillögurnar um nýtt húsnæðisbótakerfi byggðu meðal annars á þeim grunnstoðum að húsnæðisstuðningur væri óháður búsetuformi, að húsnæðisbætur tækju mið af fjölskyldustærð óháð aldri fjölskyldumeðlima. Upphæð húsnæðisbóta tæki mið af grunnneysluviðmiðun, neikvæðum jaðaráhrifum væri haldið í algeru lágmarki, bæturnar væru samtímagreiðslur og nýtt kerfi yrði innleitt í áföngum. Um þetta fyrirkomulag var breið samstaða og innleiðingaferlið hófst strax í ársbyrjun 2013 eins og ég nefndi áðan með því að tekjuskerðingarmörk húsaleigubóta voru hækkuð um 12,5%. Það var sem sagt farin sú leið að byrja að lyfta upp þakinu á húsaleigubótunum til að jafna stöðuna milli bótakerfanna og koma því þannig fyrir að stærri hópur ætti rétt til bótagreiðslna samhliða því að kerfin yrðu sameinuð.

Eftir stjórnarskiptin í sumarbyrjun 2013 var það ákvörðun nýs húsnæðismálaráðherra að skipa verkefnisstjórn til að gera ítarlega úttekt á húsnæðismálum landsmanna. Ákvarðanir um frekari útfærslu og framhald þeirra aðgerða sem búið var að grípa til varðandi nýtt húsnæðisbótakerfi voru settar í bið meðan þessi vinna stóð yfir. Ný verkefnisstjórn skilaði tillögum sínum síðastliðið vor og hver varð niðurstaðan? Niðurstaða þessarar nýju verkefnisstjórnar nýs húsnæðismálaráðherra voru meðal annars þær að taka heils hugar undir þær tillögur sem lágu fyrir um upptöku nýs húsnæðisbótakerfis. Í skýrslu verkefnisstjórnar segir, með leyfi forseta:

„Unnið verði áfram á grundvelli þeirra tillagna sem starfshópur um húsnæðisbætur setti fram í maí 2012, m.a. varðandi hækkun húsaleigubóta, og þeirrar útfærslu sem sérfræðingahópur á vegum verkefnisstjórnar um breytingar á umhverfi vaxtabóta og húsaleigubóta til að sameina í eitt húsnæðisbótakerfi vann að og kemur fram í minnisblaði í viðauka. Einnig er lagt til að sérfræðingahópurinn starfi áfram að útfærslu sameiningarinnar þ.m.t. með sérfræðingum velferðarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Frumvarp um sameiginlegt kerfi verði lagt fyrir Alþingi haustið 2014.“

Þetta var skýr niðurstaða. Verkefnisstjórnin tók í einu og öllu undir þær tillögur sem búið var að móta og byrjað að hrinda í framkvæmd í ársbyrjun 2013. Hún lagði áherslu á að tillögunum yrði fylgt eftir með markvissum og skjótum hætti og frumvarp um húsnæðisbótakerfi yrði lagt fyrir þingið haustið 2014. Það frumvarp hefur enginn séð enn þá, það er ekki komið hingað inn á borð. Ég veit að verið er að vinna í því verkefni í ráðuneyti húsnæðismála og vonandi fáum við að sjá þær tillögur fyrr en seinna. En verkefnið hefur ekki gengið fram með þeim hraða sem verkefnisstjórn ráðherra lagði til. Það er dapurlegt að hugsa til þess að þær ágætu tillögur sem var búið að móta og vinna og full samstaða var um skyldu í raun og veru vera settar í bið og í frost sem við sjáum ekki enn fyrir endann á, í stað þess að menn hefðu haldið áfram með verkefnið á þeim grunni sem var búið að ná breiðri samstöðu um. Í skýrslu verkefnisstjórnarinnar frá síðastliðnu vori var einnig bent á það sem vitað var að ekki væri hægt að sameina þessa tvo bótaflokka í húsnæðismálum, húsaleigubætur og vaxtabætur, nema með ákveðnum aðdraganda og aðlögun, eins og segir í skýrslunni. Fyrsta skrefið væri að hækka húsaleigubætur til að þær nálguðust verðmæti vaxtabóta líkt og byrjað var að gera í ársbyrjun 2013. Það var mat verkefnisstjórnarinnar eftir að hafa farið yfir útreikninga að til að gera húsaleigubætur jafnsettar vaxtabótum þyrfti að leggja til 2 milljarða, 2 þús. milljónir, árlega til að jafna þá stöðu. Var þá ekki reiknað með neinni nýliðun og viðbótarfjölda inn á húsaleigumarkaðinn, en við vitum auðvitað að þar hefur verið töluverð nýliðun og viðbót.

Virðulegi forseti. Ég rifja þetta upp vegna þess að hér er um gríðarlega stórt og mikilvægt hagsmunamál að ræða varðandi þann hóp landsmanna á íbúðamarkaði sem hefur verið settur til hliðar í þeim ráðstöfunum sem stjórnvöld eru að grípa til í húsnæðismálum fyrir takmarkaðan hóp landsmanna. Í staðinn fyrir að fylgja eftir þeirri vinnu sem var komin í framkvæmd í ársbyrjun 2013 við upptöku húsnæðisbóta og allir aðilar voru sammála um sem að því komu er liðið vel á annað ár án þess að nokkuð annað hafi gerst en að ný nefnd ráðherra hefur tekið undir allar fyrri hugmyndir og hvatt til frekari útfærslu og þeim verði flýtt sem kostur er.

Í því upphaflega fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 sem var lagt fram fyrr í haust var ekki að finna eina einustu krónu til þessa verkefnis eða í raun og veru til stuðnings húsaleigubótakerfinu. Í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er nú gerð tillaga um 400 millj. kr. viðbótarframlag sem áfanga í því að koma á nýju húsnæðisbótakerfi. Það er vissulega ástæða til að fagna þeirri viðleitni en því miður dugar hún ansi skammt. Hún dugar ansi skammt vegna þess að fjárhæðin er afar takmörkuð og langt í frá það sem þarf til að stíga alvöruskref í þessu máli miðað við þá 2 milljarða sem ég nefndi hér á undan. Í öðru lagi vegna þess að ekki eru gerðar neinar breytingar á skerðingarmörkum í húsaleigubótakerfinu heldur er eingöngu verið að bæta í stuðning við þann takmarkaða hóp sem fær húsaleigubætur í dag. Sú breyting skilar engu fyrir allan þann hóp sem ekkert hefur fengið og mun ekkert fá að óbreyttu. Þetta eru engar úrlausnir sem duga fyrir leigjendur sem samstæðan hóp. Á engan hátt er heldur tekið á þeim hópi sem er með búseturétt og hefur verið hliðsettur í þessu máli eins og fram hefur komið í umræðunum í kvöld. 400 millj. kr. eru fimmtungur af því sem þarf í árlegt framlag til að gera bótakerfin jafnsett samkvæmt mati verkefnisstjórnar húsnæðismálaráðherra. Það mun því ganga hægt og lítið gerast á komandi ári og árum ef framhaldið verður í sama dúr. Það er sorglegt því hér er um mikilvægt réttlætismál að ræða sem ég get ekki séð að nokkur pólitískur ágreiningur sé um að öðru leyti en því að sýna þarf vilja í verki og hrinda þeim málum í framkvæmd sem menn eru sammála um að þurfi að útfæra og koma fram til að koma á jöfnuði í þessum efnum.

Í mínum huga er líka full ástæða til þess að setja þessa fjárhæð, 400 millj. kr., í samhengi við þá 40 milljarða sem eru nú samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 að fara úr ríkissjóði með sérstöku framlagi til að niðurgreiða skuldir íbúðareigenda og önnur eins fjárhæð til viðbótar úr ríkissjóði á næstu tveimur árum. Hvert er þá framlagið til að rétta af stöðu leigjenda sem hafa búið við síhækkandi leigu og flestir án nokkurra réttinda til bóta? 400 millj. kr. gera lítið í því að koma góðum áformum um húsnæðisbótakerfið áfram. 400 millj. kr. til að styrkja húsaleigubætur á komandi ári eru heilt 1% af þeirri fjárveitingu sem er svo mikilvæg að mati stjórnvalda til að leiðrétta stöðu íbúðareigenda. Ég spyr: Eiga þeir sem eru á leigumarkaði ekki rétt og kröfu til sömu leiðréttingar? Hvernig er hægt að bjóða upp á slíka mismunun? Manni verður hugsað til orða Jóns Hreggviðssonar: Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti. Ég held að þau eigi nokkuð vel við í þessum efnum.

Forseti. Mig langar í framhaldi af þessari umræðu um húsnæðismál og húsnæðisbætur að velta aðeins vöngum yfir þeim stóru línum sem birtast í fjárlagafrumvarpinu með ótrúlega stórum tekjutilfærslum. Þetta eru í raun stærri og meiri tekjutilfærslur en maður hefur séð um langan tíma eða bara nokkru sinni í efnahagssamfélagi sem á að heita í þokkalegu jafnvægi í dag, miðað við þá stöðu sem við þurftum að takast á við á fyrstu árum eftir hrun og þann glæsta árangur sem náðist á síðasta kjörtímabili við að rétta af þjóðarskútuna. Þá var ekki óeðlilegt að fara þyrfti í ákveðna tekjutilfærslu með því að ná nýjum tekjupóstum inn í samfélagið til að mæta gríðarlegum skuldaþunga sem hvíldi þá á ríkissjóði. En þegar farið er að birta til og það er að komast á jafnvægi í efnahagsmálum sjáum við hvernig núverandi ríkisstjórn nýtir sér tækifærið. Í stað þess að halda stöðu sinni á þeim grunni að byggja upp þá velferð sem var fyrir niðurskurð, sem var nauðsynlegur í þeim aðstæðum sem við þurftum að glíma við á síðustu árum, nýtir hún tækifærið þegar sér aftur til sólar til að fara út í stórfelldar tekjutilfærslur með því að gefa eftir tekjupósta í auðlindagjaldi og veiðigjaldi upp á nærri þrjá tugi milljarða kr., hátt í 30 milljarða kr. Maður hefði getað ímyndað sér að það væri þörf fyrir þá í heilbrigðiskerfinu og í almannaþjónustu sem kallar hástöfum á fjármagn til að geta haldið uppi eðlilegum rekstri í dag. En þá hafa menn efni á því að gefa frá sér tekjupósta sem ættu í eðli sínu að vera sjálfsagðir sem partur af tekjugrundvelli samfélagsins.

Á sama tíma er líka farið út í stórfelldar breytingar á virðisaukaskattskerfi sem fela í sér tekjutilfærslu sem verður greidd að stærstum hluta af því fólki sem þarf að eyða mestum hluta launa sinna í matvöru og aðrar helstu nauðþurftir. Það er auðvitað verið að gera stórfelldar breytingar á innra skipulagi samfélags okkar með þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Menn mega ekki vera svo blindir af aukaatriðum í stóru plaggi fjárlagafrumvarps hverju sinni að þeir sjái ekki stóru línurnar sem lagðar eru með því að breyta á þennan stórfellda hátt tekjutilfærslunni og hverjir það eru sem eiga að bera uppi tekjupósta þjóðarbúsins og standa undir velferðinni. Á sama tíma og verið er að skera niður velferðina eru málin sett í þann farveg að þeir sem hafa tekjurnar óskertar í sínum vasa, af því að það er búið að aflétta þeim sköttunum, mega borga sig fram fyrir aðra í biðröðinni í heilbrigðiskerfinu. Þeir munu hafa efni á því að stunda nám eða koma börnum og fjölskyldum sínum í nám sem öðrum mun ekki standa til boða á sama jafnréttisgrundvelli og verið hefur. Það eru þær breytingar sem eru það alvarlegasta þegar maður skoðar stóru línurnar í frumvarpinu. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig þróunin verður ef stjórnvöld fá tækifæri til að halda áfram að mylja múrinn í velferðinni og samfélagsskipuninni á þessum grundvelli á næstu árum. Það er virkilega eitthvað til að hafa áhyggjur af.

Talandi um skattaumræðu af því að hún er stór hluti af því sem skiptir máli í sambandi við fjárlagagerð hverju sinni þá er ekki annað hægt að segja en að það sé stórundarlegt að upplifa þá umræðu sem hér hefur verið um svokallaðan ferðamannaskatt, túristaskatt, túristapassa. Ég man eftir umræðunni í þingsal á haustdögum trúlega 2012 þegar stjórnvöld komu með tillögur inn í fjárlög um gistináttagjald. Margir þingmenn þáverandi stjórnarandstöðu gátu ekki haldið vatni yfir þeim ósköpum að skattleggja ætti ferðamannaiðnaðinn þannig að hætta væri á því að hann nánast legðist af og öll framtíðaruppbygging væri í stórfelldum voða hvað það snerti.

Nú höfum við horft á nýjan ráðherra takast á við þetta verkefni hátt í tvö ár og árangurinn er sá að enginn veit í raun og veru hvert er verið að fara og tillögurnar virðast ætla að fara í marga hringi. Á meðan fáum við ekki á nokkurn hátt inn þær tekjur í þjóðarbúið sem við hefðum haft tækifæri til og værum búin að safna í sjóði á þeim tíma sem liðinn er. Sérstaka athygli í mínum huga vekur Sjálfstæðisflokkurinn í þessu. Hann hefur ekki gert lítið úr því í gegnum tíðina að útmála skattgleði svokallaðra vinstri flokka á þann máta að þeir hafi ótakmarkað hugmyndaflug um skattlagningu í einu og öðru og flutt langar og miklar ræður um það. En ég verð að segja að ég hafði ekki hugmyndaflug til að geta ímyndað mér að einhverjum dytti í hug að gera að andlagi í skattamálum landslag og náttúru Íslands og að Sjálfstæðisflokkurinn færi þar í fararbroddi. Ég held að þar séu slegin öll met í hugmyndaflugi í skattálagningu. Maður spyr auðvitað að því í fúlustu alvöru: Hvenær kemur að því að andrúmsloftið verði skattlagt og menn fái einhvern kvóta í þeim efnum ef svona á að halda áfram? Það er dapurlegt að horfa upp á þennan hringlandahátt sem maður sér engan veginn fyrir endann á. Og fram undan er enn eitt stóra ferðamannaárið, árið 2015 sem væntanlega mun slá öll met miðað við fyrri ár. Það er ekki hægt að sjá að nokkur trygging verði fyrir því að við fáum þá inn eðlilega skattheimtu af ferðamannaiðnaðinum eins og menn voru þó tilbúnir að fara með fram fyrir þó nokkrum árum síðan en mættu svo mikilli andstöðu og mótbyr í þingsal að ekki var hægt að fylgja því máli eftir. Og hvert árið á eftir öðru líður og það eru milljarðar farnir út um gluggann sem við hefðum getað notað í uppbyggingu og með eðlilegum hætti haft þær tekjur sem við eigum auðvitað sannarlega að hafa af þessum vaxandi iðnaði í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Landsmenn hafa þurft að færa margvíslegar fórnir á liðnum árum. Við höfum tekist á við sársaukafullan samdrátt og niðurskurð í nær allri grunnþjónustu. Við höfum tekist á við umtalsvert atvinnuleysi og meiri tekjusamdrátt en um langt árabil. Þetta hefur verið mörgum þung raun en með markvissum aðgerðum og aðhaldi tókst að snúa vörn í sókn á ótrúlega skömmum tíma. Grunnur að þeirri endurreisn var lagður strax eftir stærstu áföllin og samfélagið og þjóðarbúið er nú búið að ná góðri viðspyrnu. Það voru ekki allir tilbúnir til að tala fyrir þeim erfiðu og óvinsælu aðgerðum sem oft og tíðum þurfti að grípa til en þeir hinir sömu virðast nú ófeimnir að þakka sér árangurinn sem nú er að birtast í aukinni hagsæld og stórbættri stöðu ríkissjóðs. Og hver á forgangsröðunin að vera þegar við höfum nú tækifæri til að styrkja og efla það samfélag sem við höfum byggt upp undanfarna mannsaldra? Það samfélag hefur grundvallast á menntakerfi þar sem allir hafa sömu tækifæri, öryggi og velferð fyrir þá sem þurfa á stuðningi að halda, traustu heilbrigðiskerfi fyrir alla óháð efnahag og fjölbreyttri og skapandi menningu á heimsvísu. Við höfum vissulega ekki búið í hinu fullkomna samfélagi en við höfum samt verið merkilega sammála um að samfélag okkar eigi að byggjast á grunni jöfnuðar og réttlætis. En sjáum við þess stað í fjárlagatillögum fyrir komandi ár að á þessum gamla og trausta grunni ætlum við að byggja endurreisnina eftir hrunið? Birtist það í hækkun matarskatts og annarra nauðþurfta? Birtist það í hækkuðum álögum í lyfjakostnaði? Birtist það í takmörkuðum aðgangi að menntakerfinu? Birtist það í hruni heilbrigðiskerfisins sem blasir við að óbreyttu? Birtist það í skerðingu á réttindum atvinnulausra? Birtist það í ákalli Ríkisútvarpsins um að fá að lifa áfram? Þannig mætti spyrja vegna þess að því miður er af nógu að taka. Það er ekki nema von að þjóðin spyrji: Fyrir hvað og hverja var fórnað og skorið niður þegar áföllin dundu yfir? Hvað á að vera í forgangi þeirrar uppbyggingar sem nú er að verða möguleg? Hvernig á að skipta kökunni þegar hún er ekki lengur að minnka heldur farin að stækka og stækka jafnvel langt umfram það sem ráðamenn höfðu gert sér vonir um? Þetta eru þær grundvallarspurningar sem landsmenn spyrja þessa dagana og það verður fylgst vel með því hvernig Alþingi ætlar að svara þeim við afgreiðslu fjárlaga á næstu dögum.