144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:28]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ágæta yfirferð yfir hvernig fjármagn hefur flust á undanförnum tveimur árum til þeirra sem eiga nóg af því á meðan þeir sem eiga minna hafa í mörgum tilfellum þurft að borga.

Ég get ekki neitað mér um að koma hingað upp til að ganga úr skugga um að ég hafi skilið þingmanninn rétt. Ég hef verið að velta fyrir mér þessum 400 milljónum sem veittar eru til húsnæðisbóta og hef bara ekki fengið skýringar á þeim í þessari umræðu fyrr en nú og vildi vera viss um að ég skildi þetta rétt. Ef ég skil hv. þingmann rétt þá jafngilda þessar 400 milljónir 1/4 af því fjármagni sem þyrfti til þess að þeir sem eru í leiguhúsnæði stæðu jafnt að vígi þeim sem njóta vaxtabóta. Ég vona að þetta sé rétt skilið hjá mér.

Svo segir hann að það séu einungis tekjulægstu hóparnir sem njóti þessara vaxtabóta út af tekjuskerðingum. Það er þá alltaf minni og minni hluti leigjenda vegna þess að leigjendum hefur fjölgað svo mikið að margir þeirra hafa meðaltekjur og njóta því engra húsaleigubóta út af tekjuskerðingum. Er rétt (Forseti hringir.) skilið hjá mér að þetta sé eiginlega bara dropi í hafið?