144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem mér fannst afskaplega upplýsandi. Eiginlega rak mig í rogastans á köflum vegna þess að það var margt sem kom fram sem ég hafði ekki sett í tölulegt samhengi eða annars konar samhengi, m.a. þetta með fólkið sem keypti fasteignir og fékk svona miklar fjárhæðir í vaxtabætur, eins og fyrri ríkisstjórn hefur lagt ríka áherslu á og hefur verið við lýði í töluverðan tíma, þá höfðu húsaleigubæturnar auðvitað ekki hækkað að sama marki. Svo er það tekjuskiptingin. Mér fannst hún áhugaverð og þetta segir okkur enn frekar hvað þetta fólk hefur lengi legið óbætt hjá garði.

Það sem er athyglisvert í öllu þessu er tilhneiging núverandi ríkisstjórnar til þess að byrja upp á nýtt í flest öllu. Þetta nefndafargan sem skipað hefur verið, ég held að einhver met hljóti að hafa verið slegin í því að þurfa að hefja alla starfsemi upp á nýtt. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagði einmitt í dag varðandi RÚV að þrátt fyrir að henni hefði ekki líkað breytingin sem gerð var þar þá auðvitað framfylgdi hún henni í staðinn fyrir að byrja upp á nýtt, ég nefni þetta af því hv. þm. kom inn á það að þessar tillögur hefðu í raun verið komnar á flot.

Mig langar til að spyrja þingmanninn varðandi þessi mál. Er hægt að gera þetta í einhverjum áföngum? Hann talar hér um að þetta væri bara 1/5 til að jafna. Er hægt að gera þetta í áföngum sem væru samt sem áður til bóta fyrir fólk?