144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Það var akkúrat þetta sem ég var að velta fyrir mér, hvort við gætum gert þetta á þennan hátt. Hv. þingmaður minntist á hverjir ættu rétt. Ég lagði fram tillögu hér á síðasta þingi sem sneri að því að — með breyttri skipan sveitarfélaga hefur það orðið þannig og atvikast t.d. í mínu kjördæmi að nemandi sem er afar langt að heiman nýtur ekki húsaleigubóta af því hann býr á heimavist, og aðrir leigja sér kannski herbergi, en hann kemst ekki heim á hverjum degi vegna þess að vegalengdin er svo mikil. Þetta er auðvitað eitt af því sem gleymdist svolítið að gera ráð fyrir þegar sveitarfélögin voru sameinuð, þannig að þetta er eitt af því sem ég var að vitna til, hvort hægt væri að taka út einhverja svona bita án þess að fara í stóra kerfisbreytingu, eins og þingmaðurinn segir kostar það gríðarlega mikið.

Þessar 400 milljónir eru jú bara mótvægisaðgerð við virðisaukaskattshækkunina. Hvað þarf að mati hv. þingmanns um það bil til að byrja?