144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:45]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er dapurt að horfa til þess að sú staða sé komin upp að þessir samningar um stuðning við almenningssamgöngur séu skertir með þeim hætti sem birtist í frumvarpinu. Við megum ekki gleyma því að það var sameiginleg stefnubreyting af hálfu sveitarfélaganna hér á höfuðborgarsvæðinu sem fyrsti áfangi í þessu máli að semja við stjórnvöld um að fá þennan stuðning upp á milljarð kr. inn í samgöngurnar til að efla byggðasamlagið um almenningssamgöngur, Strætó bs., á móti því að menn léttu af margs kyns kröfum um stórfelldar vegaframkvæmdir hér á höfuðborgarsvæðinu.

Menn sáu að stefndi í ákveðið öngstræti með alla þá umferð sem var að blása út og það væri engin lausn til frambúðar að horfa til þess að byggja þyrfti mislæg gatnamót þvers og kruss um allt höfuðborgarsvæðið og stofnbrautir til að geta komið fólki á milli í einkabílum; auðvitað væri hin rétta umhverfisvæna leið að koma stærri hluta fólks í öruggum samgöngum á milli staða.

Þetta átak gekk framar öllum vonum. Við sjáum það bara á þeirri stórfelldu aukningu sem hefur verið í almenningssamgöngum hér á svæðinu, ég tala ekki um þjónustuaukninguna með samningunum við landshlutasamtökin hringinn í kringum landið. Þetta er algjör bylting frá því sem áður var.

Það er alvarlegur hlutur ef menn eru að bregða fæti fyrir og ætla í raun að hindra að þessi uppbygging geti haldið áfram með þeim hætti sem raun ber vitni. Og gerum okkur grein fyrir því að það er nú ekki alltaf sem öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ná saman um jafn stóran hlut eins og gerðist í þessu mikilvæga máli.