144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla og góða ræðu og einstaklega góða yfirferð yfir ýmis mál sem heyra undir velferðarmál.

Í dag var dreift frumvarpi til laga sem hv. þm. Björt Ólafsdóttir er einmitt fyrsti flutningsmaður að og með henni á því eru félagar hennar úr Bjartri framtíð. Frumvarpið kveður á um breytingu á hegningarlögum og er stefnt gegn hefndarklámi. Ég fagna framkomu þessa frumvarps og held að við ættum að drífa í því að koma því á dagskrá og til nefndar því að þetta er mikið þjóðþrifamál.

Það leiðir huga minn að því að kynferðisofbeldi í ýmissi mynd er landlægur vandi hér eins og því miður í öllum öðrum ríkjum. Það hefur breytt um form, eins og hefndarklámið minnir okkur á, en kynferðisofbeldi af ýmsu tagi er líka enn við lýði og hefur grasserað í mannlegum samskiptum frá örófi alda. En meðvitund hefur aukist og stjórnvöld og félagasamtök hafa bundist sammælum um að vinna gegn því og reyna að forða sem flestum frá því að verða fórnarlömb.

Á fjárlögum var framlag úrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis, en það hefur nú verið skorið niður í fjárlagafrumvarpi fyrir 2015. Það beinir orðum mínum að kynbundnu ofbeldi, þolendum kynferðisofbeldis og úrræðum fyrir þá sem þingmaðurinn kom inn á. Ég vil heyra aðeins nánar hvaða áhrif hv. þingmaður telur að það hafi að (Forseti hringir.) skera þetta framlag niður (Forseti hringir.) eins og áætlað er í fjárlagafrumvarpinu.