144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:27]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir falleg orð varðandi frumvarpið sem við leggjum fram um hefndarklám. Það er í raun birtingarmynd þess að við lifum í nýjum veruleika. Við lifum allmikið í netheimum, á hverjum degi, og þar gerast ýmsir hlutir, bæði góðir og vondir. Við verðum að vakna og vera í takt við það, láta lögin vera í takt við þann veruleika sem við búum við.

Hv. þingmaður talaði um vitundarvakninguna og þá miklu samvinnu sem stjórnvöld fóru í á síðasta kjörtímabili. Stjórnvöld á þeim tíma eiga mikið hrós skilið fyrir að hafa farið fram með vitundarvakningu varðandi kynferðisbrot, einkum brot er snúa að börnum. Þau gerðu það í miklu samstarfi við ýmis félagasamtök og hagsmunaaðila. Það er auðvitað þyngra en tárum taki að sjá þá vinnu verða að engu þrátt fyrir fyrirheit þingmanna úr öllum flokkum í kjölfar druslugöngunnar í sumar. Þá vildi enginn skera neitt niður. Þá vildu allir bæta í, þá vildu allir halda áfram sama flotta starfinu og gera betur. En það er nú aldeilis ekki að sjá í þessu fjárlagafrumvarpi og það er skömm að því.