144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talaði um að læknar væru í fyrsta skipti í sögu Íslands í verkfalli. Ég hef verið að tala við lækna síðustu daga og þeir eru orðnir langþreyttir. Það sem ég hjó eftir var að læknar tóku ekki þátt í góðærinu á við aðra. Einn læknir sagði við mig að þeir væru seinþreyttir til leiðinda og hefðu þar af leiðandi kannski verið of seinir að krefjast kjarabóta. En þeir taka starf sitt alvarlega og hafa ekki farið í verkfall áður á Íslandi.

Með það í huga og þá staðreynd að það er eindreginn vilji landsmanna að forgangsraða skattfé sínu í heilbrigðiskerfið, eins og fram kemur í könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir þingflokk pírata núna í nóvember, það á við alla kjósendur allra flokka í öllum kjördæmum, alla aldursflokka og alla tekjuflokka. Þetta kemur líka fram í stjórnmálaályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins rétt fyrir kosningar þar sem segir að leggja skuli skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi og er örugg heilbrigðisþjónusta nefnd fyrst þar.

Í ofanálag var sagt í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum, sem var kosningaloforð þeirra í heilbrigðismálum, að leiðarljósið væri að heilbrigðisstarfsfólkið okkar væru hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins. Og í stefnuskrá Framsóknarflokksins í heilbrigðismálum var sagt að verðmæti heilbrigðisþjónustunnar fælist fyrst og fremst í mannauðnum og að forðast þyrfti atgervisflótta úr stéttinni.

Nú stöndum við frammi fyrir því að læknar eru í verkfalli í fyrsta skipti í sögunni. Hvað finnst hv. þingmanni um það? Finnst hv. þingmanni ekki að við eigum að hlusta á landsmenn þegar 90% þeirra segjast vilja setja heilbrigðiskerfið í forgang, í 1. og 2. sæti, og forgangsraða fjármunum þangað þannig að við förum ekki að missa læknana úr landi nú þegar atgervisflóttinn er orðinn mikill?