144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og þakka jafnframt þingflokki Pírata fyrir þá könnun sem þeir létu gera. Það er til fyrirmyndar.

Núna daglega koma fréttir af læknum sem segja upp af því að þeim finnst ríkja fullkomið skilningsleysi gagnvart kröfum sínum. Það er ekki bara það að 90% vilji forgangsraða til heilbrigðiskerfisins, yfir 80% landsmanna vilja heldur ekki frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Það má eiginlega segja að séu Íslendingar sammála um eitthvað þá er það sterkt opinbert heilbrigðiskerfi, það er í fyrsta sæti.

Ég held við verðum að skoða í samhengi verkfall lækna, Landspítalann, sem þarf að endurnýja húsnæðið sitt, tækjakaup og almennt viðhorf stjórnvalda til þessa málaflokks. Ég ætla ekki að segja til um hvort þeir tóku þátt í góðærinu eða ekki, ég held að það hafi nú verið með ýmsum hætti, en læknar líta fyrst og fremst á það sem skyldu sína að lækna sjúklinga sína eða að veita þeim sem besta mögulega meðferð. Þegar þeir hafa ekki einungis dregist aftur úr kjörum heldur hafa ekki tæki eða aðstæður til þess að sinna sjúklingum sínum þá er útlitið ansi svart. Það dregur líka úr möguleikum þeirra til rannsókna til að viðhalda sér í starfi, en læknar eru yfirleitt vísindamenn samhliða lækningastörfum sínum. Þess vegna tek ég undir með hv. þingmanni; að sjálfsögðu þurfa að koma mjög skýr fyrirheit frá stjórnvöldum (Forseti hringir.) um að hér eigi í raun og veru að forgangsraða í þágu (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfisins.