144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við alþingismenn erum ekki viðsemjendur við lækna en við eigum að tryggja fjármuni inn í kerfið. Og við förum nú ekki í 40 daga jólafrí, ég held að það sé alveg útilokað. (Gripið fram í.)

Ég vil líka benda á að við erum þessa dagana nánast komin með þetta mál í fullkomnar ógöngur því að þeim mun lengri tími sem líður, þeim mun erfiðara verður að ná samningum. Sífellt fleiri læknar segja nú upp störfum. Næstkomandi mánudag mun koma í ljós í niðurstöðu úr atkvæðagreiðslu lækna hvort þeir hefja nýtt 12 vikna verkfall eftir áramót með lengri lotum. Nú þegar mun taka meira en ár að vinna upp þá biðlista sem myndast hafa vegna yfirstandandi verkfallsaðgerða. Það er fullljóst að setja verður meiri fjármuni í heilbrigðiskerfið. Við getum gert það með smáreisn (Forseti hringir.) í fjárlögunum, að öðrum kosti (Forseti hringir.) gerum við það í (Forseti hringir.) fjáraukalögum á næsta ári, því að heilbrigðiskerfið (Forseti hringir.) getur ekki rekið sig með þeim (Forseti hringir.) fjármunum sem því eru nú ætlaðir.