144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:24]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur kærlega fyrir ræðuna. Áður en ég ber upp spurningu til hennar vil ég vekja athygli hæstv. forseta á því að í þessari málstofu sem hann stendur fyrir er enginn stjórnarþingmaður. Hér er formaður velferðarnefndar að ræða fjárlög ríkisstjórnarinnar og hefur sérstaklega þungar áhyggjur af heilbrigðismálunum, lífeyrisskuldbindingum og öðru og enginn er til þess að hlusta á hana úr stjórnarliðinu nema hæstv. forseti og það er engin svör að fá. Ég spyr: Til hvers erum við eiginlega að þessu? Ég ætla að byrja á þessari spurningu og ég vonast til að fá svar við henni.

Ég er óttalega lítið til í að eyða tíma mínum og annarra, eyða skattpeningum í það að stjórnarandstöðuþingmenn séu hér að tala hver við annan. Það er ekki hlutverk okkar. Við eigum að vera aðhald framkvæmdarvaldsins og þau eiga að treysta sér í umræðuna.

Þá að spurningum til hv. þingmanns. Hún fór aðeins yfir lífeyristryggingarnar og það þykir mér gott því að þau mál, eins og almennu tryggingarnar allar, eru flókin. Mig langar að biðja hana að útskýra aftur í stuttu máli hvað það er í tillögum minni hlutans, þessum aukningum hér frá minni hlutanum, af hverju það skiptir svona miklu máli og ef ekkert verður að gert, ekkert verður bætt í, hvað við sjáum þá fram undan.