144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar við 2. umr. um fjárlög ársins 2015 segja að ég tel það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir ekki gott. Ég tel það ekki boða góð tíðindi því að það er til þess fallið að auka ójöfnuð í samfélaginu og það veikir velferðarsamfélagið okkar. Á árunum fyrir efnahagshrun höfðu tekjustofnar ríkisins verið veiktir og þeir stóðu því mjög illa undir nauðsynlegum auknum útgjöldum og eins tekjutapi sem efnahagshrunið hafði í för með sér. Síðasta ríkisstjórn fór í það verkefni að styrkja þá tekjustofna aftur með til dæmis breikkun skattstofna og nú er þess farið að sjá stað í ríkisfjármálunum að þau njóta góðs af þessum aðgerðum. Sem betur fer er útlit fyrir að batinn muni halda áfram, í það minnsta ef við munum ekki hvika um of af þeirri leið sem hefur verið mörkuð á síðustu árum, en því miður er það gert í fjárlagafrumvarpinu. Ég tel að vegna þess að horfurnar eru fremur góðar og í það minnsta mun betri en þær voru fyrir nokkrum árum sé núna tækifæri til að hlúa að innviðum íslensks samfélags og styrkja þá. Það gæti verið, það verður að vera tækifæri til að borga niður skuldir sem ég held að allir séu sammála um að sé nauðsynlegt að gera, t.d. eins og ýmsir hv. þingmenn hafa minnst á, með hag barna okkar og barnabarna að leiðarljósi. En því miður sé ég þess ekki stað hér, við stígum ekki nein skref í því að borga skuldir niður. Ég tel það mikið áhyggjuefni.

Þá er annað mál sem er það afsal tekna sem hæstv. ríkisstjórn boðar, m.a. með því að í ár er auðlegðarskattur innheimtur í síðasta sinn. Einungis með því að hætta að innheimta hann verður ríkið af 10 milljörðum í skatttekjum, 10 milljörðum sem ég tel að við þurfum einmitt að nota í styrkingu á innviðum. Hið sama má segja um veiðigjöld og svo bætist við að ríkið ætlar að fella niður vörugjöld, sem ég skal ekki segja, kann vel að vera skynsamlegt í einhverjum tilfellum en þá veikjum við þá skattstofna sem ríkið hefur til þess að reka velferðarsamfélagið.

Eins og kemur fram í nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 er gert ráð því í frumvarpinu að samneysla okkar fyrir árið 2014 verði 28,2%. Þetta er lægra hlutfall en er til að mynda annars staðar á Norðurlöndum. Það finnst mér áhyggjuefni, við þurfum að hafa sterka innviði. Boðaðar breytingar á virðisaukaskattskerfinu hafa einnig verið mikið ræddar hér, en hækka á matarskatt úr 7% í 11%. Ég hef mjög miklar áhyggjur af því hvaða áhrif þetta komi til með að hafa fyrir tekjulága einstaklinga. Útreikningar, m.a. ASÍ, hafa sýnt að tekjulágir einstaklingar verja hlutfallslega hærri hluta launa sinna í matarinnkaup en aðrir tekjuhærri hópar. Í þessum tekjulága hópi eru meðal annars öryrkjar og fátækt barnafólk. Mig langar í því samhengi að nefna að barnafátækt á Íslandi hefur því miður verið að aukast á undanförnum árum og nú er staðan orðin þannig að það fjölgar í hópi þeirra sem eiga mjög erfitt með að ná endum saman. Það er hópur sem skortir efnisleg gæði. Í því samhengi vil ég líka ræða um hækkun á virðisaukaskatti á bókum og menningu því að þetta eykur á vanda þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman. Ef virðisaukaskattur á menningu og bækur er hækkaður er mjög líklegt að þær afurðir, þ.e. bækurnar og menningin, muni hækka í verði sem aftur leiðir til þess að það verður erfitt fyrir þá efnaminni að veita sér þann „munað“ að njóta menningar eða bókmennta. Ég vil ekki búa í samfélagi þar sem það er einhvers konar lúxus fyrir hina tekjumeiri að geta keypt sér bækur eða að njóta menningar. Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við hugsum um heildarmyndina sem fjárlög hverju sinni sníða, bæði hvernig ríkið aflar tekna og hvernig það deilir þeim út aftur.

Ég fagna því að í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er lagt til að sett verði aukið fé í Landspítalann en ég held að allir sjái að þó að verið sé að hækka krónutöluna sem er sett í Landspítalann og heilbrigðiskerfið þarf miklu meira til. Það þarf enn meira til en það sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að verði bætt við. Eins og kemur fram í ágætri skoðanakönnun sem þingflokkur Pírata lét framkvæma vilja Íslendingar að Alþingi forgangsraði fjármunum til heilbrigðismála, en yfir 90% landsmanna vilja það. Ég tel að það sé eitthvað sem við eigum að hlusta á. Auðvitað er gott að ríkisstjórnin sé að leggja til þó nokkuð háar upphæðir inn í málaflokkinn en það þarf meira. Og það kostar. Það er staðreynd, en þá verðum við bara að afla peninganna sem það kostar og útdeila fjármunum með þeim hætti að við getum sett peninga í málaflokkinn. Ég vil núna, af því að ég er byrjuð að tala um heilbrigðismálin, einnig minnast á það að í fjárlagafrumvarpinu er boðuð aukin kostnaðarhlutdeild sjúklinga í þeim lyfjum sem kölluð eru S-merkt lyf. Það eru sérstök sjúkrahúslyf sem hafa verið gefin á sjúkrahúsum eða göngudeildum en sumir taka reyndar út úr apótekum og taka heima hjá sér. Og nú er það sá hópur sem fer með lyfin sín heim sem á að fara að borga hlutdeild í þessum lyfjum. Ég hef áhyggjur af því í fyrsta lagi að þarna eigi að leggja auknar álögur á fólk sem oft hefur ekki mikinn afgang. Staðan er nú þegar sú að hluti öryrkja og reyndar bara hluti almennings hefur ekki efni á að leysa lyfin sín út og ég tel að þetta muni auka á þann vanda. Mér finnst að við séum að fara ranga leið því að mínu mati eigum við einmitt að vinna að því að minnka kostnaðarhlutdeild sjúklinga í lyfjum. Hér erum við að fara akkúrat í öfuga átt. Í öðru lagi hef ég áhyggjur af því hvaða afleiðingar það getur haft að sumir eigi að borga fyrir S-merktu lyfin sín, þ.e. þeir sem eru á lyfjum sem þeir taka utan sjúkrastofnana, en aðrir þurfa ekki að borga vegna þess að þeir fá lyfin á spítölum. Ég hef áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefur. Verður farið að líta til annarra þátta en þeirra læknisfræðilegu þegar læknar ávísa lyfjum til fólks? Fer fólk að hugsa um budduna sína og hvort það hafi efni á þessum lyfjum þegar kemur að því að velja á milli ólíkra lyfjategunda? Ég hef áhyggjur af því hvaða áhrif þetta getur hreinlega haft á heilbrigði landsmanna. Þetta er stórt og flókið mál og ég held að þetta geti hreinlega verið hættulegt. Þess vegna geri ég athugasemdir við aukna kostnaðarhlutdeild sjúklinga í S-merktum lyfjum, annars vegar á pólitískum forsendum af því að mér finnst einfaldlega rangt að við séum að auka kostnaðarhlutdeild sjúklinga og hins vegar vegna þess að ég hef áhyggjur af því hvað það geti haft í för með sér heilsufarslega.

Tengt velferðarmálunum vil ég einnig gera að umtalsefni þá tillögu meiri hluta fjárlaganefndar að hækka bætur almannatrygginga um einungis 3%, en ekki 3,5% eins og fjárlagafrumvarpið þó gerir ráð fyrir, með þeim rökum að verðlagsforsendur hafi þróast með svo jákvæðum hætti að ekki þurfi að gera meira til þess að bætur almannatrygginga haldi kaupmætti sínum. Ég spyr: Af hverju mega öryrkjar ekki njóta þess að verðlagsþróun hafi verið hagstæð? Rannsóknir sýna að þessi hópur, þ.e. fatlað fólk og öryrkjar, er líklegri en margir aðrir hópar til að búa við fátækt eða vera á mörkum fátæktar. Þess vegna þurfum við að bæta í fyrir þennan hóp og ég segi: Nú er lag til þess að gera það.

Maður þarf að fara út um víðan völl því að það er margt í fjárlagafrumvarpinu sem mér finnst vera að toga okkur sem samfélag í svo ranga átt. Þess vegna vill maður drepa niður fæti á mörgum stöðum í því og tæpa á mörgum atriðum, en það verður bara svo að vera því að það eru óskaplega mörg mál sem verður að nefna. Eitt þeirra eru menntamálin. Það sem ég vil sérstaklega nefna er sú staðreynd að í fjárlagafrumvarpinu er boðað að aðgangur þeirra sem eru 25 ára og eldri að framhaldsskólanámi verði takmarkaður til að ná fram sparnaði í rekstri skólanna. Mér hefur hingað til fundist einn af stóru kostunum við íslenskt samfélag vera sú staðreynd að menntakerfið hefur verið þannig að fólk hefur getað aflað sér aukinnar menntunar þó að það hafi ekki farið alveg beinu brautina og farið í menntaskóla strax að loknum grunnskóla. Útlendingar verða stundum hissa á því þegar þeir heyra að fólk með fjölskyldu og börn sé að snúa aftur í skóla og afla sér aukinnar menntunar. Það hefur oft verið erfitt fyrir fólk að minnka við sig vinnu og setjast aftur á skólabekk en það hefur verið hægt vegna þess að þetta hefur verið — ég mundi reyndar ekki segja ódýrt en tiltölulega ódýrt, sérstaklega ef það er borið saman við það að þurfa að borga skólagjöld í einkareknum framhaldsskólum. Mér finnst það óskaplega dapurlegt ef við ætlum að taka frá fólki þennan möguleika til að breyta til, til að bæta við sig menntun og læra meira því að ég held að aukin menntun sé alltaf til bóta fyrir samfélagið í heild. Þá á ekki að skipta máli hvort einstaklingurinn er 17 ára eða 27 ára eða 57 ára.

Annað sem ég vil rétt aðeins tæpa á er málefni Ríkisútvarpsins. Ég tek undir það sem segir í nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þótt það sé gleðiefni að gert sé ráð fyrir því í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar að útvarpsgjald renni óskipt til Ríkisútvarpsins er það að sama skapi óásættanlegt að skilyrða framlagið með þeim hætti sem gert er og óeðlilegt inngrip gagnvart stjórn RÚV. Það er líka dapurlegt að lækka eigi útvarpsgjaldið um áramótin úr 19.400 í 17.800 kr. og skerða þannig tekjustofn RÚV.“

Nú skal það viðurkennt að eflaust eru margir, ef ekki flestir, hér inni mér reyndari í því að lesa í gegnum frumvörp eins og fjárlagafrumvarpið sem og nefndarálit og breytingartillögur en mig rak í rogastans þegar ég las um þessa skilyrðingu á tekjustofninum til RÚV. Mér datt hreinlega ekki í hug að svona væri gert, að einhver léti sér detta í hug að gera svona. Mér finnst þetta mjög skrýtið og set bara spurningarmerki við það. Er hægt að gera svona? Getum við, þótt við séum löggjafarsamkundan, tekið svona fram fyrir hendurnar á stjórn RÚV? Svo vil ég bæta því við að RÚV er almannaútvarp og nauðsynlegt að það sé sterkt vegna þess að það er svo mikilvægt fyrir lýðræðið að hér fari fram upplýst og opinber umræða sem dregur ekki taum einhverra eigenda fjölmiðilsins. Þetta finnst mér algjört grundvallaratriði og þarf þess vegna varla að orðlengja um það hvers vegna við eigum að tryggja að Ríkisútvarpið hafi það rekstrarfé sem nauðsynlegt er til að halda úti góðri þjónustu, ekki einhverri nánasarlegri lágmarksþjónustu.

Virðulegi forseti. Það sem ég hef tæpt á hér er allt til þess fallið að mínu mati að veikja velferðarsamfélagið. Þetta hefur allt, hvert með sínum hætti, þau áhrif að stuðla að ójöfnuði og aukinni misskiptingu í samfélaginu. Það er verið að létta álögum af þeim efnameiri en auka þær á þá sem eru tekjulægri. Þessu tel ég mikilvægt að andæfa, að tala gegn og ég vona svo sannarlega — ég sé að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson situr hérna (Gripið fram í.) og ég er bara að segja að mér finnst í fjárlagafrumvarpinu verið að fara í ranga átt í því hvernig við rekum samfélag okkar og mér finnst mikilvægt að eiga það samtal við stjórnarliða, bara til að ítreka það. Við erum að fara í ranga átt og ég vil að þú heyrir það. (Gripið fram í.) Þú heyrðir það. Gott. Ég vona að þú takir það til greina og vonandi gerir eitthvað með það.

Að lokum langar mig að tæpa á stöðu okkar á þessu eylandi og tengslum við umheiminn. Þó að við séum eyja langt norður í hafi erum við ekki ein á jarðarkúlunni og þess vegna finnst mér að við verðum að hugsa ekki bara um okkur hérna þröngt sem samfélag heldur um okkur sem samfélag í samfélagi þjóðanna. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að nefna Útlendingastofnun. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er lagt til að lækka útgjöld til Útlendingastofnunar úr 251,9 milljónum í 236 milljónir. Á sama tíma hefur hæstv. innanríkisráðherra, fyrrverandi frá því núna áðan, lýst því yfir að gert verði átak í afgreiðslu mála hælisleitenda. Stytta á tímann sem það tekur að afgreiða mál en þó með minni peningum. Mér finnst rosalega mikilvægt í þessu máli að við séum ekki að stytta afgreiðslutíma mála til þess að geta ýtt fólki hraðar úr landi. Auðvitað eigum við að stytta afgreiðslutíma mála þeirra sem sækja um hæli til að þeir fái svör á skemmri tíma. Það má þó aldrei verða til þess að við skoðum mál þeirra ekki alveg niður í kjölinn og ýtum þeim hraðar í burtu. Hér bankar upp á hjá okkur fólk sem oft er í brýnni nauð en staðan í heiminum er því miður bara sú að á árinu 2013 voru fleiri vegalausir innan eða utan eigin landamæra en nokkru sinni síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sem líklega er sá aðili sem best er til þess bær að áætla fjölda flóttamanna í heiminum, áætlar að nú séu ríflega 51 milljón manna á flótta. Þeim fjölgaði um 6 milljónir á milli ára. Þetta eru gríðarlega háar tölur og auðvitað kemur hluti af þessu fólki hingað, við erum vel stætt vestrænt samfélag þannig að auðvitað hlýtur fólk að koma hingað. Mín skoðun er sú að við eigum að bjóða miklu fleiri velkomna hingað og þess vegna er nauðsynlegt að um leið og við förum vel yfir þeirra mál tökum við líka vel á móti þeim og hleypum fleirum hingað inn.

Annað í tengslum við stöðu okkar í heiminum sem ég vil nefna er niðurskurður á framlögum til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Þessi niðurskurður er í ósamræmi við þá þróunarsamvinnuáætlun sem Alþingi samþykkti í mars árið 2013. Þar var samþykkt áætlun um að við mundum hækka framlög okkar til þróunarsamvinnu. Þau eru núna ekki nema 0,22% af landsframleiðslu en stefnan er að fara með þau upp og þau áttu að vera komin upp í 0,35% árið 2015. Mér finnst þetta óskaplega dapurlegt. Þótt við séum að kljást við ýmislegt hér innan lands, m.a. skiptingu á þjóðarauð okkar, erum við eins og ég sagði áðan þrátt fyrir allt meðal ríkustu þjóða heims. Þess vegna ber okkur siðferðileg skylda til að veita peninga til þróunaraðstoðar. Það er mikilvægt vegna þess að þar með getum við lagt okkar lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum fólks í fátækustu ríkjum heims.

Á sama tíma og við skerum niður fjármagn til Útlendingastofnunar og Þróunarsamvinnustofnunar, a.m.k. er ekki verið að bæta í, — og kannski rétt að taka fram að þetta eru auðvitað ekki stærstu fjárhæðirnar sem hér er um að ræða þegar við hugsum um fjárlög í heild sinni en engu að síður fjárhæðir sem skipta máli — er í sama fjárlagafrumvarpi verið að hækka framlög til hernaðarbandalagsins NATO. Þau hafa verið að hækka síðustu ár og eins og lesa má í fjárlagafrumvarpinu sjálfu er þetta gert meðal annars til að standa straum af kostnaði vegna byggingar nýrra höfuðstöðva NATO. Hér finnst mér alveg óskaplega illa farið með fé.

Virðulegi forseti. Er það þetta sem heimsbyggðin þarf, glæstari höfuðstöðvar fyrir hina háu herra í NATO eða er það aukin aðstoð við fátækustu þjóðir heims eins og til dæmis í gegnum þróunarsamvinnu? Hér eru áherslurnar kolrangar.

Svo ég fari að ljúka máli mínu vil ég taka undir þær breytingartillögur sem minni hluti fjárlaganefndar leggur til við 2. umr. fjárlaga. Eitt af því sem mig langar að nefna í því samhengi og ber þar kannski hæst er 1,9 milljarða viðbótarframlag til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu sem og þær tillögur um viðbótarframlög umfram fram komnar breytingartillögur ríkisstjórnarinnar til þess að mæta ástandinu á Landspítalanum. Eins og ég fór yfir áðan er gríðarlega mikilvægt að við eflum Landspítalann. Á sama tíma, eins góðar breytingartillögur minni hlutans eru og jafnvel sumar af breytingartillögum meiri hlutans eins og ég fór í áðan, eru þær auðvitað ekkert annað en plástur á helstu vankantana á fjárlagafrumvarpi hæstv. ríkisstjórnar. Það er einfaldlega vitlaust gefið í fjárlagafrumvarpinu sem og því hvernig við ætlum að afla tekna í ríkissjóð. Við erum að veikja tekjustofna ríkisins, þ.e. ekki við, hæstv. ríkisstjórn ætlar að veikja tekjustofna ríkisins. Ef ég fengi að ráða færum við svo sannarlega í öfuga átt. Það er dregið úr samneyslunni, við erum að velta auknum byrðum á almenning og þetta er einfaldlega kolröng forgangsröðun í ríkisfjármálum.