144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað henni finnist um þá stöðu að nú eru læknar í verkfalli í fyrsta skipti í sögu landsins. Ég talaði nýlega við sitjandi landlækni. Nú rétt í þessu átti ég samtal við fyrrverandi landlækni, Ólaf Ólafsson, og ég er búinn að tala við fjölmarga aðra lækna. Er hv. þingmaður búin að tala við lækna og skoða stöðuna?

Við höfum fjárveitingavaldið hér á Alþingi þó að í raun og veru hafi meiri hlutinn það. Þegar upp er staðið er það í raun minni hlutinn af meiri hlutanum sem hefur fjárveitingavaldið. Formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, hefur kannski minna vald en færir okkur upp goggunarröðina, fjármálaráðherra hefur klárlega fjárveitingavald og heilbrigðisráðherra er líklega þarna á milli, að sjálfsögðu hæstvirtir báðir tveir, og svo náttúrlega hæstv. forsætisráðherra landsins. Þetta eru þeir sem ráða raunverulega forgangsröðinni og hversu miklu eigi að úthluta.

Nú skulum við skoða hverju þeir lofuðu. Þeir eru formenn flokka sinna. Fyrir kosningar lofuðu þeir kjósendum, landsmönnum og flokksmönnum sínum, því að leggja fyrst fé í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi. Þar var fyrst nefnd örugg heilbrigðisþjónusta. Hvað heilbrigðisþjónustuna varðar voru báðir flokkar sammála um að heilbrigðisstarfsfólkið væri okkar raunverulegu verðmæti. Kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks töldu að verðmæti heilbrigðisþjónustu fælust fyrst og fremst í mannauðnum.

Nú eru læknar í verkfalli í fyrsta skipti í sögunni. Það er mikil mannekla. Það eru mjög lág laun í boði fyrir þá ungu sérfræðinga sem (Forseti hringir.) koma nú til starfa. Læknar segja: Við erum búin að missa heila kynslóð í sumum deildum. Hvað finnst hv. þingmanni um það? (Forseti hringir.) Eigum við ekki að forgangsraða, eins og landsmenn segja, í þágu heilbrigðiskerfisins, sem er brýnasta verkefnið núna, og tryggja að læknar haldi ekki áfram í verkfalli?