144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og fyrir að hefja þessa umræðu því að ég hef mjög miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem uppi er og sem verið hefur á undanförnum vikum vegna verkfalls lækna. Ég held að við séum að komast í alveg rosalega slæm mál vegna þess að eins og rakið hefur verið í dag úr þessum ræðustól þá verðum við mjög lengi að vinna á þeim kúf sem myndast hefur vegna læknisaðgerða sem bíða, sem er frestað, og eins vegna mannauðsins, læknanna sem við gætum verið að missa úr landi, eins og hv. þingmaður nefndi.

Ég er fullkomlega sammála hv. þingmanni um að það er í raun stóra og dýra verkefnið sem við þurfum að setja mikinn fókus á og mikla peninga í. Því miður virðist það vera svo að hæstv. ríkisstjórn talar óskaplega fallega í þessu máli, hún talar á hátíðlegum stundum um að hér þurfi að vera gott heilbrigðiskerfi, en ekkert fjármagn fylgir því. Þetta virðast bara vera orðin tóm, því miður. Þó svo að peningar séu settir í heilbrigðiskerfið þá er það bara svo langt frá því að vera nóg.

Stjórnarliðar hreykja sér af því að krónutölurnar hækki, en það er eins og þeir sjái ekki heildarmyndina eða vilji ekki sjá hana. Þess vegna er ég fullkomlega sammála hv. þingmanni, við þurfum að gera miklu betur hérna. Þetta hlýtur að vera stóra málið sem við þurfum að fókusera á og finna leiðir til þess að fjármagna (Forseti hringir.) kerfið. Það er hlutverk okkar.