144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:31]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (frh.):

Virðulegi forseti. Það var sjálfsagt mál að gera hlé á ræðunni eftir góðfúslega beiðni frá virðulegum forseta. Ég hafði farið yfir nokkur atriði og bent á að við værum á réttri leið með mjög margt. Þó væru einhverjir þættir þar sem mætti gera betur og þyrfti kannski að skoða betur á milli 2. og 3. umr. Ég veit að hv. fjárlaganefnd mun taka málið inn á milli umræðna og fjalla efnislega um þau atriði og er það vel.

Tekjuhlið ríkissjóðs hækkar í heild um 9,5 milljarða kr. og það skýrist af hækkun tekjuskatts, sem mun hækka um 22,2 milljarða kr. Þar eru tæplega 9,5 milljarðar kr. vegna tekjuskatts einstaklinga og ýmissa launatengdra gjalda, 11 milljarðar kr. vegna tekjuskatts lögaðila og sérstaks fjársýsluskatts. Þá er gert ráð fyrir 2,6 milljarða kr. hækkun vegna fjármagnstekjuskatts.

Tillögur til hækkunar eru af ýmsum tilefnum en það svigrúm sem gefst með hærri tekjum er notað til þess að forgangsraða til heilbrigðisþjónustu, framkvæmda Vegagerðarinnar, auka barnabætur og með því að setja fjármagn í ýmsa smærri málaflokka.

Hér er gerð tillaga um 9,1 milljarðs kr. hækkun gjalda. Það má gróflega flokka tilefnin í þrennt. Í fyrsta lagi hafa gjaldaliðir sem taka mið af ýmsum forsendum um verðlagsþróun, atvinnuleysi og útgjöldum almannatrygginga, sem og samnings- og lögbundnir liðir verið endurmetnir. Það kallar á 3,5 milljarða kr. hækkun og þar af vegur langþyngst tillaga um 2,4 milljarða kr. aukningu framlags til Íbúðalánasjóðs. Eins og hefur komið fram í umræðum er um að ræða hliðaráhrif af flýtingu á niðurgreiðslu húsnæðislána til heimilanna — þetta er leiðréttingin svokallaða. Næstmest munar um 1,1 milljarðs kr. hækkun til sjúkratrygginga og 600 millj. kr. hækkun á útgjöldum almannatrygginga. Einnig er meðtalin 1 milljarðs kr. hækkun barnabóta, sem er ætlað að vera mótvægisaðgerð vegna fyrirhugaðra breytinga á virðisaukaskattskerfinu. Á móti hækkunartilefnum vegur 1,6 milljarða kr. lækkun á áætlun um verðlagshækkanir, þar sem nú er spáð mun minni verðbólgu á næsta ári en áður var gert. Auk þess verða útgjöld vegna atvinnuleysisbóta samkvæmt spánni 1,5 milljörðum kr. minni en áætlað hafði verið sem eru afar jákvæð tíðindi.

Í öðru lagi er lagt til að vaxtagjöld lækki um 1,7 milljarða kr. Það má rekja til þess að dregið hefur verið úr útgáfu ríkisbréfa frá því sem áður var gert ráð fyrir vegna bættrar afkomu ríkissjóðs. Þá hafa forsendur um stýrivexti og verðlagsbreytingar breyst til hækkunar í takt við nýja þjóðhagsspá Hagstofunnar. Ég held að það sé ágætt að ræða þennan lið aðeins því í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar segir einfaldlega mjög skýrt að nokkuð sé í land með að hefja niðurgreiðslu skulda. Það er vissulega áhyggjuefni, en vaxtakostnaður er þriðji útgjaldamesti málaflokkurinn á eftir heilbrigðismálum og almannatryggingum. Vaxtakostnaður er svo hár að hann nemur hærri fjárhæð en öll framlög ríkissjóðs til reksturs Landspítalans og Sjúkratrygginga Íslands. Því miður vegna þessara skulda verðum við nú sem aldrei fyrr að sýna ráðdeild og skynsemi í ríkisfjármálum sem mér finnst vera mjög skýr merki um að verið sé að gera í þessu fjárlagafrumvarpi.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að veita ný framlög að samtals fjárhæð 7,3 milljarða kr. Þar má helst nefna styrkingu á rekstrargrunni Landspítalans og fleiri sjúkrahúsa, einnig úti á landsbyggðinni, hönnun á meðferðarkjarna við nýjan Landspítala og stóraukin framlög til Vegagerðarinnar, sérstaklega innanlandsflugsins og flugvallanna sem ég fagnaði sérstaklega. Ég ítreka þó áhyggjur mínar af nýframkvæmdum og fjármagni til viðhalds vegakerfisins, en ég veit að það er vilji hjá ríkisstjórn og Alþingi að gera betur í þeim málaflokki.

Þá er gert ráð fyrir umtalsverðri styrkingu háskólakerfisins og Landhelgisgæslunnar auk margvíslegra annarra mála sem er vel. Ég held að vert sé þó að benda á það að ég hef eins og fleiri þingmenn í Norðausturkjördæmi áhyggjur af framlagi til Háskólans á Akureyri. Við sjáum stóraukin framlög til Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, það er verið leiðrétta ýmsa hluti, sem er jákvætt, en ég hvet fjárlaganefnd til að skoða sérstaklega hvort Háskólinn á Akureyri hafi ekki gleymst í þessum efnum. Þar hefur verið uppsafnaður vandi sem því miður var ekki leyst úr á síðustu árum. Við erum reyndar að bæta aðeins í, sem er vel, en ég tel að við þurfum að gera aðeins betur til þess að gæta fulls jafnræðis á milli þessara háskóla.

Háskólinn á Akureyri hefur margítrekað sannað gildi sitt sem ein tryggasta stoð landsbyggðarinnar. Sérstaða hans er gríðarleg, hann hefur fetað á nýjar slóðir sem aðrir háskólar hafa ekki gert, verið með rannsóknir sem hafa vakið athygli erlendis, starfsmenn hafa sýnt gríðarlegan metnað og dugnað við að halda uppi gæðum og starfi skólans þrátt fyrir þröngan hag oft á tíðum. Svo verðum við líka að horfast í augu við að háskólinn og tilkoma hans hefur skapað mikla þjónustu og vinnu á Akureyri. Það má í raun segja að eftir að sambandsverksmiðjurnar hættu á sínum tíma hefur Háskólinn á Akureyri gert að verkum að íbúaþróun á Akureyri hefur verið frekar jákvæð, hún hefur staðið í stað eða verið svona aðeins upp á við. Það má því svo sannarlega segja að Háskólinn á Akureyri sé ein af grunnstoðum ekki bara samfélagsins þar heldur landsbyggðarinnar og landsins alls. Ég fagna því sérstaklega að verið sé að setja sérstakt fjármagn í kennslu í heimskautarétti. Við sem höfum áhuga á norðurslóðamálum sjáum hversu gríðarleg tækifæri eru þar. Háskólinn hefur skapað sér mikla og góða sérstöðu í þessu efnum og við erum að bæta hér aðeins í þannig að hægt verði að efla kennslu í þessari mikilvægu námsgrein, sem er kannski ein og sér best fallin til þess að sýna fram á þá miklu og góðu sérstöðu sem Háskólinn á Akureyri hefur.

Svo erum við að setja fjármuni í byggðamálin, sem er mjög jákvætt. Við þurfum reyndar að mínu mati að gera betur í þessum málaflokki þegar fram líða stundir. Við í Framsóknarflokknum lögðum fram mjög ítarlega og góða byggðastefnu fyrir síðasta flokksþing, sem var samþykkt samhljóða. Þar bentum við á þá leið sem Norðmenn fóru í sínum byggðamálum, eina þjóðin á Norðurlöndunum sem hefur farið í róttækar aðgerðir, en þeir veittu skattaívilnanir til ungs fólks, ungs barnafólks sérstaklega, og reyndu að stuðla að því að ungt fólk sem fer og sækir sér menntun annars staðar flytjist aftur heim, gera þeim það kleift. Allt þetta hefur skilað sér í auknum hagvexti á svæðum í Norður-Noregi sem hafa átt undir högg að sækja eins og margar byggðir á Íslandi. Það er vel að við erum að setja bæði fjármuni í byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta og tryggja að netsamband verði með betra móti. Það er því margt sem er mjög jákvætt í þessa átt.

Þar sem ég á afar stutt eftir af ræðu minni vil ég taka það fram og beina því til fjárlaganefndar að skoða sérstaklega framlög til Ríkisútvarpsins. Því miður voru stigin óheillavænleg skref á árinu 2011 þegar hinar svæðisbundnu útsendingar voru lagðar niður þannig að ein af grunnstoðum okkar mikilvæga þjóðarútvarps var í raun slegin af að mínu mati. Ég hef hlustað á nýjan útvarpsstjóra og fleiri sem vilja gera betur í þessum málaflokki. Ég heyrði í nýjum útvarpsstjóra sem er staðsettur á Akureyri og áherslan er lögð á landsbyggðina og ég fagna því sérstaklega. Ég beini því til fjárlaganefndar að skoða þetta sérstaklega. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við eigum að hafa öflugt almannaútvarp sem sinnir landsbyggðinni, menningarmálum og sínu lögbundna hlutverki af kostgæfni. Ég hef trú á því að bæði ný stjórn og nýr útvarpsstjóri vilji vinna í þá veru, en þá verðum við að gæta að því að fjármagn til stofnunarinnar sé tryggt þannig að hún geti staðið undir sínu lögbundna hlutverki. Ég gekk mjög hart fram á síðasta kjörtímabili og gagnrýndi þetta og hef ávallt verið þessarar skoðunar og ítreka hana hér með.

Það eru mörg mál hér sem hægt væri að koma inn á en ég held að ég hafi hreyft við þeim flestum. Við erum á réttri leið með fjárlagafrumvarpinu. Við sýnum að við erum að verða komin út úr kreppunni. Það eru enn þá stór skref eftir en ef heldur áfram sem horfir munum við taka þau líka til heilla fyrir íslenskt samfélag.