144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:54]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég mun kynna mér þessa tillögu frá stjórnarandstöðunni. En ég hvet þingmanninn um leið til að kynna sér þá umræðu sem var hér á síðasta kjörtímabili og hefur verið hér úr þessum ræðustól um hinar mörkuðu tekjur. Það er umræða sem ég held að sé mjög brýnt að fari fram. Ég held að við þurfum að móta okkur stefnu þegar kemur að því hvort við ætlum að láta allar markaðar tekjur renna óskiptar, eins og til Vegagerðarinnar eða til Fjármálaeftirlitsins eða annarra stofnana, eða hvort við ætlum ekki að gera það. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi jafnt að ganga yfir.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir vanda Háskólans á Akureyri. Ég mun beita mér fyrir því að hann fái leiðréttingu til samræmis á við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Ég veit að fulltrúar í fjárlaganefnd munu taka það til skoðunar.