144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:59]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er félagshyggjumaður, svo sannarlega. Þess vegna tala ég fyrir því að við á komandi árum setjum aukið fjármagn í heilbrigðis- og menntamál. Við þurfum að sjálfsögðu að tryggja tekjustofna þar á móti. En það er vissulega erfitt að finna þetta jafnvægi, hvort við eigum að hafa hærri eða lægri skatta, hvort skili meiri raunverulegum tekjum á endanum í ríkissjóð, vegna þess að ekki viljum við skattleggja fólk eingöngu til að skattleggja. Við ætlum væntanlega að reyna að skapa hagvöxt og það hefur tekist. Það er vel.

Ég vil svo segja að ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni þegar hún talar um að við séum að auka tekjubilið. Ég sé það þannig að við séum að auka hag allra, það er algjört lykilatriði að mínu mati. Ég hefði á sínum tíma viljað að hv. þingmaður styddi mínar tillögur um aukið framlag til barnabóta sem ég lagði ítrekað fram á síðasta kjörtímabili. En við erum að setja 1 milljarð og það er vel gert, virðulegi forseti.