144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:50]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að heyra niðurstöður könnunarinnar sem hv. þingmaður vísaði í. Hún kemur heim og saman við kannanir sem hafa verið gerðar hér í gegnum árin. Ég vísa í könnun Félagsvísindastofnunar fyrir nokkrum árum og þar áður var könnun sem BSRB lét framkvæma þar sem spurt var um afstöðu manna til heilbrigðisþjónustunnar. Þar var yfirgnæfandi meiri hluti því fylgjandi að hún væri almannarekin, almannaþjónusta, og fjármögnuð með skattfé.

Spurt var hvort fólk væri reiðubúið að greiða hærri skatta til að fá betri þjónustu. Já. Svarið var á þessa lund þannig að þessar kannanir tala allar á einn veg.

Ef við þurfum að endurskoða tekjuöflun ríkisins — við erum tilbúin til þess í stjórnarandstöðunni að setjast niður og ræða það með hvaða hætti við getum aflað tekna til að fjármagna bætta stöðu heilbrigðiskerfisins, þar á meðal aðstöðu lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna, tækjabúnað og annað slíkt — þá erum við að sjálfsögðu tilbúin að gera það.