144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem fjallaði að nokkru leyti um mál nr. 2, um virðisaukaskatt og neyslustýringu og annað slíkt. Ég ætla ekki að koma inn á það.

Embætti sérstaks saksóknara var sett á laggirnar af þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Birni Bjarnasyni, sem er sjálfstæðismaður. Sérstakur saksóknari átti að starfa í tvö ár og taka á þeim brotum sem urðu til eftir hrunið. Hann er nú búinn að starfa í sex ár, hann er sem sagt búinn að vera fjórum árum lengur en til stóð þannig að það er mjög eðlilegt að menn taki á því, vinni að breytingum á embættinu og sameini það venjulegu kerfi.

Varðandi heilbrigðiskerfið og læknaverkfallið, sér hv. þingmaður fyrir sér að læknar fái einir hækkanir eða eiga sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar líka að fá hækkanir? Á allur Landspítalinn að fá hækkanir? Hverja ætlar hann að undanskilja,? Og hvað með aðra opinbera starfsmenn? Þeir krefjast 40% hækkunar. Verður þá ekki bara skriða um allt kerfið?