144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:53]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er gildra sem er reynt að egna fyrir alla sem ræða um læknaverkfallið: Ætlarðu ekki að segja já við því að allir fái sömu hækkun og allir þeir sem starfa hjá ríkinu eigi að fá samsvarandi hækkun? Síðan á niðurstaðan að liggja fyrir: Það er ekki hægt að gera þetta, það veldur verðsprengingu í þjóðfélaginu.

Ég ætla ekkert að svara spurningunni á annan veg en þann að það eru margar heilbrigðisstéttir sem þurfa að fá bætt kjör sín og það þarf að breyta tekjuskiptingunni almennt í samfélaginu. Ég minnist þess að þegar lægstlaunaða fólkið, fiskvinnslufólkið, krafðist bættra kjara kom drífa auglýsinga í fjölmiðlum landsins frá SA og hátekjuaðlinum þar sem varað var við því að hreyfa við tekjum þeirra sem væru með lök laun.

Staðreyndin er sú að læknar (Forseti hringir.) sætta sig ekki lengur við að vinna á þeim kjörum sem þeim eru boðin og það verður að leysa það mál.