144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Um allan heim eru læknar hátekjustétt. Þeir eru með mjög góðar tekjur og njóta þess líka að geta farið á milli landa. Það sem mér heyrist hv. þingmaður vera að berjast fyrir er að hækka laun hátekjustéttar sem er sennilega með hæstu laun háskólamanna í störfum hjá ríkinu. Mér finnst dálítið illa farið fyrir fyrrverandi formanni BSRB, sem hefur oft talað um að bæta kjör þeirra lægst launuðu en ekki þeirra sem eru með háu tekjurnar. Það hefur kannski breyst eitthvað.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur það breyst eða ætlar hv. þingmaður að hækka laun lægri stétta, umönnunarstétta og annarra slíkra hjá spítölunum í takt við það sem læknar krefjast nú? Og hvað mun það kosta í heildina þegar allt er komið? Þetta er ekki gildra, þetta er hinn nakti raunveruleiki sem hv. þingmaður ætti að þekkja.