144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:51]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að undirstrika það sem kom fram í ræðu hjá hv. þingmanni um hugsunarháttinn gagnvart þeim sem þurfa á aðstoð frá samfélaginu að halda og þá fátækt sem hér hefur skapast, þ.e. annars vegar um réttindi og hins vegar ölmusu. Mig langar að heyra skoðun þingmannsins varðandi það. Mér finnst gæta ölmusuhugsunarháttar hjá núverandi ríkisstjórn og mér finnst það vera í andstöðu við það sem þjóðin vill, sem er að við eigum ákveðin réttindi og getum nýtt þau ef á þarf að halda.

Mig langar líka að heyra frá hv. þingmanni hvað varðar samkeppni um læknaþjónustu en þá erum við í samkeppni við önnur lönd. Við vitum að við glímum þar við íslenska gjaldmiðilinn sem hrundi í hruninu. Menn hafa oft hælt sér af því að hann hafi hjálpað okkur í gegnum erfiðleika en hann skapaði þann vanda sem við erum að glíma við. Þurfum við ekki að ræða það hreinskilnislega hvernig við ætlum að bæta þessa samkeppnisstöðu með íslensku krónuna?

Í síðasta lagi varðandi kynferðisofbeldi; það er dæmi um að aðgerðaáætlun er hent til hliðar af því að það kemur ný ríkisstjórn.