144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Já, þetta eru góðar spurningar. Ég veit að við deilum mjög mörgum svipuðum áhyggjuefnum og þekkingu og áhugasviði, sér í lagi þegar kemur að þeim sem minnst mega sín í samfélaginu. Það er mjög gott að finna samherja á Alþingi þar að lútandi og ég vil þakka þingmanninum fyrir það.

Það sem ég mundi segja um þessa öfugu lýðheilsuaðferðafræði varðandi hækkun á matarskatti og þeirri furðulegu hugmyndafræði sem er tengd við það, að það sé einföldun á skattkerfinu og virðisaukaskattskerfinu og gera á sama tíma sykur ódýrari. Alveg sama í hvaða flokki ég væri þá gæti ég ekki tengt það við neina lógík, þetta er fullkomlega ólógískt og mun þýða að við séum að senda vandamál inn í framtíðina; enn eitt vandamálið sem við erum að fara að senda inn í framtíðina sem börnin okkar fá í arf frá okkur.

Ég hef fylgst mjög vel með og lesið mér til um mataræði og samsetningu þess og tengsl þess við fátækt. Það er yfirleitt þannig að þeir sem eru fátækastir borða óhollasta matinn af því að það er ódýrara að kaupa óhollan mat en hollan. Ég var að vonast til þess að við mundum fara af þessari leið. Ég er ekkert sérstaklega hrifin af neyslustýringu en við höfum komið okkur saman um að áfengi eigi að vera dýrt. Af hverju ekki þá sykur? Það er mjög dýrt að glíma við þau heilbrigðisvandamál sem stafa af of mikilli sykurneyslu.