144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég get ekki sagt að ég sé á heildina litið fylgjandi forgangsröðuninni. Það er ýmislegt sem mér finnst vanta inn í forgangsröðunina. Að sjálfsögðu fagna ég ýmsu og þess vegna sagði ég ekki að mér þætti allt ómögulegt sem þið eruð að gera. Það er ekki þannig, það er margt mjög gott sem þið eruð að gera. Það er mjög gott að hækka eigi húsaleigubætur. Vandamálið sem fylgir því, og það þekki ég eftir að hafa verið leigjandi til langs tíma, að þá hækkar leigan alltaf. Það er rosalega snúið. (VigH: Já, fer … til leigusalans.) Því miður, en ekki leigjandans. Þess vegna segi ég: Ef við erum með bilað kerfi, af hverju endurhugsum við það þá ekki? Ég bíð mjög spennt eftir að sjá þær tillögur sem munu vonandi koma frá hæstv. velferðarráðherra varðandi húsnæðiskerfið. Ég vona að ég geti stutt það eindregið, en það er ekki þannig og það er aldrei svart og hvítt, það er ekki þannig að allt sem þið gerið sé ómögulegt, (Forseti hringir.) alls ekki, en þið megið líka hlusta aðeins meira á okkur.