144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:50]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við eigum svo sannarlega að forgangsraða til heilbrigðiskerfisins. Ég vil ítreka það þegar hv. þingmaður heyrir til sem ég sagði í ræðu minni, ég þakkaði þingflokki Pírata alveg sérstaklega fyrir þá skoðanakönnun sem þeir borguðu Capacent Gallup til að gera. Sú niðurstaða kom mér ekki á óvart en það er mjög mikilvægt fyrir þessa umræðu að fá hana á skjölum, eins og hún er. Hún kemur mér ekki á óvart og þess vegna á þetta að vera höfuðáhersla okkar nú.

Ég gerði málefni Landspítalans að umtalsefni í talsvert langan tíma og við hv. þingmaður ræðum það kannski í seinna andsvari, ég hef tekið eftir því að hann er duglegur í andsvörum og að ræða málefni Landspítalans. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni Sjúkrahúsið á Akureyri og það sem hann sagði er alveg rétt. Á fundi með okkur þingmönnum kjördæmisins í kjördæmaviku, þar sem ætlast er til þess að við hittum forsvarsmenn helstu stofnana okkar og fulltrúa sveitarfélaga, kom þetta fram. Ég er ekki með þessi gögn en mig minnir að talað hafi verið um 120 milljónir sem vantaði nauðsynlega þar inn. Í fjárlagafrumvarpinu voru aðeins settar 15 millj. kr. og það var það sem þeir voru að ræða um. Þetta var eftir að fjárlagafrumvarp kom fram þannig að ég hygg að það séu 120 að teknu tilliti til þessara 15, en hér í tillögu meiri hlutans eru einungis settar fram 50 millj. og þá er þetta ekki nema tæpur helmingur sem þarna er orðið við.

Ef við förum svo í það að ræða aðrar heilbrigðisstofnanir í mínu kjördæmi þá var það álíka á Austurlandi, Húsavík og fleiri stöðum þar sem rætt var um þetta, en mér sýnist ekki vera mikið tillit tekið til þess. Ef til vill er það þannig að með hinum stóru heilbrigðisumdæmum sem taka gildi 1. janúar nk. þá áætli heilbrigðisráðherra að svo mikil samlegð og hagræðing komi út úr því að það komi til móts við þetta. Ég leyfi mér að efast um það vegna þess að sagan segir okkur að við slíkar sameiningar sé mikill kostnaður á fyrsta ári. Fjárhagslegur ávinningur kemur miklu síðar.