144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það sem Heilbrigðisstofnun Norðurlands kallar eftir að vanti hjá sér sýnist mér vera í kringum 300 millj. kr. Skoðum þessa peninga. Þetta eru ekki stórar upphæðir sem vantar þarna upp á í stóra samhenginu. Við erum með mikið af auðlindum á hvert mannsbarn í þessu landi og við getum vel staðið undir öflugu heilbrigðiskerfi. Það hefur verið fjársvelt og við höfum verið í bakkgír. Það var hrun, ekkert svokallað hrun heldur bankahrun sem var það þriðja stærsta í heiminum ef við tökum bankana saman og við höfum verið í bakkgír. Það er ekki nóg í þessu árferði núna að fara bara upp í fyrsta eða annan gír þegar forstjóri heilbrigðisstofnunar segir að við þurfum að fara hraðar og það er fyrsta læknaverkfall í sögunni. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Getum við sem þingmenn farið í jólafrí með læknaverkfallið hangandi yfir okkur?