144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála því að Alþingi geti ekki farið í jólafrí með góðu móti án þess að hæstv. ríkisstjórn hafi komið til móts við lækna í læknadeilunni og menn séu búnir að ná samningum. Þetta er grafalvarleg staða og hún hefur staðið allt of lengi, störukeppni við samningaborðið þar sem ekkert er í boði frá ríkinu nema 3% og við vitum að það verður aldrei samið um það.

Má ég minna aftur á það sem ég sagði um sérfræðilækninn sem birti bréf sitt opinberlega, sem sagði upp 60% starfi sínu, meltingarsérfræðingur, einn fremsti á landinu sem dettur þar með út úr starfsemi spítalans. Hann var með rúmar 300 þús. kr. fyrir 60% starf og 180 þús. kr. útborgað. Ef menn hafa einhverjar efasemdir um að þetta þurfi að lagfæra skil ég ekki hvað viðkomandi aðilar eru að hugsa. Þess vegna tek ég undir það sem hv. þingmaður sagði að Alþingi á ekki að fara heim fyrr en ríkisstjórnin hefur komið það mikið til móts við lækna að samningar náist, vegna þess að ástandið er grafalvarlegt og verður alvarlegra með hverjum deginum sem líður. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)