144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu þar sem hann fór yfir mjög mörg málefni, ekki síst út frá sjónarmiðum hinna dreifðu byggða.

Mig langar sérstaklega að nefna málefni Ríkisútvarpsins sem borið hefur á góma í ræðum mjög margra hv. þingmanna. Nú liggur fyrir, og það er nokkuð sem við ræddum talsvert á síðasta kjörtímabili, að skorið var niður hjá Ríkisútvarpinu í þeim mörgu niðurskurðarhrinum sem þar hafa verið allt frá því að stofnuninni var breytt í opinbert hlutafélag og hefur verið skorið talsvert niður út um land. Þá vitna ég til hinna svæðisbundnu útsendinga. Því hefur verið reynt að mæta með annars konar þjónustu úti á landi og auðvitað veitir ný tækni mjög marga möguleika, til að mynda hvað varðar staðsetningu fréttamanna og annarra dagskrárgerðarmanna.

Nú liggur fyrir að nýr útvarpsstjóri hefur kynnt framtíðarsýn þar sem hann nefnir sérstaklega fimm atriði. Eitt þeirra eru safnamál Ríkisútvarpsins sem ég veit að allir hér hljóta að vera sammála um að gera þarf að gangskör í. Annað er barnaefnið, sem er líklega eitt það mikilvægasta til að viðhalda tungunni, þ.e. að venja börn og ungmenni á að horfa á efni á íslensku. Annað af þessum fimm atriðum er sérstaklega breytt stefna hvað varðar hinar dreifðu byggðir, en það liggur líka fyrir að til að hægt sé að fylgja þessari framtíðarsýn þar sem þessi fimm stefnumið eru sett fram þarf Ríkisútvarpið, almannaútvarpið, að fá óskert útvarpsgjald, útvarpsgjald sem ekki verði lækkað.

Nú hefur hins vegar verið lagt til af ríkisstjórninni að lækka útvarpsgjaldið. Sem betur fer hef ég heyrt nokkra hv. þingmenn úr stjórnarliðinu segja hér, til að mynda hv. þingmenn Framsóknarflokksins, að þeir séu ekki vissir um að það sé rétt stefna. Ég hvet meiri hluta fjárlaganefndar, af því að hv formaður fjárlaganefndar er hér í salnum, til að endurskoða þá ákvörðun um að lækka útvarpsgjaldið. Ég vil spyrja hv. þm. Kristján L. Möller sérstaklega um þetta út frá þjónustunni við hinar dreifðu byggðir.