144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er útlátalítið fyrir meiri hlutann að skoða þessa breytingartillögu með opnum hug. Hún snýst í raun fyrst og fremst um að gera ekki breytingu á útvarpsgjaldinu og leyfa því svo að renna óskert til Ríkisútvarpsins, eins og meiri hlutinn hefur raunar lagt til. Hann hefur nú lagt til að útvarpsgjaldið fái loks að renna óskert til Ríkisútvarpsins en ætlar að lækka það. En það er útlátalítið fyrir meiri hlutann að koma til móts við, ekki bara minni hlutann heldur hina þverpólitísku stjórn Ríkisútvarpsins, sem er ágætt að rifja upp að er að tveimur þriðju hlutum skipuð fulltrúum stjórnarflokkanna. Ég hef ekki trú á öðru en að meiri hlutinn muni skoða þetta mál mjög alvarlega. Þetta er til dæmis mikið hagsmunamál fyrir landsbyggðina því að við horfum upp á þröngan fjölmiðlamarkað, við horfum upp á erfiða tíma fyrir alla fjölmiðla, ekki bara hjá Ríkisútvarpinu. Hins vegar fer öflugt fjölmiðlaumhverfi á einkamarkaði saman við öflugt almannaútvarp og þar getur hvort stutt við annað, segjum til að mynda héraðsfréttamiðlar annars vegar og hins vegar öflugt almannaútvarp.