144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:02]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt og sú sem talaði hér, fyrrverandi menntamálaráðherra, þekkir málefni Ríkisútvarpsins miklu betur en ég. En ég vil taka það fram að ég er mjög ánægður með þá breytingartillögu sem minni hlutinn setur hér fram varðandi Ríkisútvarpið, þær 712 millj. kr. sem settar eru þar inn. Ég trúi því og treysti, vegna þess að mér hefur sýnst og ég hef áður fagnað því að þingnefndir eru farnar að tala af meira sjálfstæði til að breyta hlutum sem koma frá ríkisstjórn, að á milli 2. og 3. umr. verði tekið á þessum málum hjá fjárlaganefnd sem varða Ríkisútvarpið. Ef það verður ekki gert verður hinn sami stjórnarmeirihluti að sýna okkur fram á og segja okkur hvað Ríkisútvarpið á að skera niður. Það verður þá að vera ákvörðun líka. Það gengur ekki upp eins og það er.

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað hafa meiri tíma til að ræða málefni Ríkisútvarpsins en ég tek líka eftir því og er sammála hv. þingmanni sem ræddi um þau mál, að boðaðar eru lækkanir á nefskattinum. Ég skil það í raun og veru ekki vegna þess að fjárþörf Ríkisútvarpsins er það mikil. Við skulum átta okkur á því að margt af því er vegna ákvarðana stjórnvalda, til dæmis varðandi húsnæði stofnunarinnar og lífeyrisskuldbindingarnar, sem eru einir stærstu og mest íþyngjandi liðir Ríkisútvarpsins.