144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 með breytingartillögum sem fram eru komnar bæði frá meiri hluta og minni hluta. Er margt um það plagg að segja og þau frumvörp sem fylgja með fjárlagafrumvarpinu og eru oft nefnd tekjufrumvörp og hafa verið til umræðu í þinginu.

Frumvarp til fjárlaga er kannski stærsta og mikilvægasta stefnuplagg hverrar ríkisstjórnar og þingmeirihluta. Það endurspeglar bæði forgangsröðun og áherslur þess meiri hluta. En þó að fjárlagafrumvarpið komi út á hverju ári er það ekki gagnsæjasti texti hvers hausts, kjarninn í pólitík frumvarpsins er ekki dreginn saman í þægilegum niðurstöðukafla heldur er það svo að eftir því sem umræðunni vindur fram og við lesum frumvarpið og skýringartexta fjármálaráðuneytisins betur og rýnum síðan í umræður í þinginu þá skýrist forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og hvaða pólitík frumvarpið hefur að geyma.

Nú erum við komin það langt inn á kjörtímabil ríkisstjórnarinnar að hún getur ekki lengur vísað á aðra varðandi ábyrgð á sínum verkum eins og hún hefur alveg ótrúlega staðfasta tilhneigingu til að gera, heldur er nú svo komið að ríkisstjórnin verður að horfast í augu við að hún ber ábyrgð á stjórnarathöfnum og því sem viðgengst við stjórn samfélagsins, þó að það rétt sé að geta þess að einstakir ráðherrar — og meira að segja forsætisráðherra er enn þá mjög gjarn á að vísa ábyrgð á fyrri ríkisstjórn á nánast öllu og viðhefur orðræðu sem er oft tamari þeim sem eru í stjórnarandstöðu. Hæstv. forsætisráðherra er kannski einhver vorkunn því að hann var býsna innlifaður í …

Virðulegi forseti. Ég er væntanlega ekki búin með ræðutíma minn? Eða fannst þér ræðan ekki góð?

(Forseti (ÓP): Nei, hér hefur kerfi okkar eitthvað truflast, en hv. þingmaður á 37 mínútur eftir af ræðutíma sínum.)

Já, nú kannast ég við töluna, takk fyrir það, forseti.

Svona plagg snýst ekki bara um það sem þar er heldur kannski líka það sem er þar er ekki. Mig langar þá fyrst og fremst að nefna þau viðfangsefni og atriði sem eru áhyggjuefni og viðfangsefni nýrrar aldar; í fyrsta lagi áherslumál sem lúta að loftslagsvánni og í öðru lagi þau áhyggjuefni sem lúta að grænu hagkerfi.

Á síðasta kjörtímabili settum við saman nefnd sem gerði tillögur að áherslupunktum um grænt hagkerfi. Sú niðurstaða var borin undir atkvæði í þingsal og fékk öll greidd atkvæði. Í stuttu máli sagt er sú vinna að engu höfð. Sú vinna var þeirrar gerðar að hún var til slíkrar fyrirmyndar á alþjóðavettvangi að ráðherrar og talsmenn íslenskra stjórnvalda á síðasta kjörtímabili gátu með stolti lagt fram aðgerðaáætlun í nafni Græna hagkerfisins á síðasta kjörtímabili og notið þess að segja frá því að áætlunin væri borin uppi af öllum flokkum í íslenska þinginu.

Því miður var nálgun nýrrar ríkisstjórnar eftir kosningarnar 2013 svo blind að henni var gríðarlega mikið í mun að slá út af borðinu á afskaplega einfaldan og barnalegan hátt allt sem orðið hafði til á síðasta kjörtímabili. Meira að segja var gert lítið úr verkefnum á borð við fjárfestingaráætlun og sóknaráætlun landshlutanna sem unnin hafði verið í þverpólitísku samráði og í samstarfi við sveitarfélögin um allt land og var gríðarlega gott og skynsamlegt verkefni. Formaður fjárlaganefndar hefur oftar en ekki kallað þetta gæluverkefni, sem er einhvers konar regnhlífarhugtak sem sá þingmaður notar yfir það sem henni er ekki þóknanlegt á hverjum tíma. Þarna var um að ræða mjög merkilegar tilraunir til að nálgast verkefnin þannig að þau lifðu af kosningar og svo hægt væri að taka upp þráðinn að afloknum kosningum og halda honum áfram vegna þess að vinnan hefði verið þverpólitísk. Ég vil þá sérstaklega nefna sóknaráætlanir landshluta og Græna hagkerfið.

Ungi forsætisráðherrann sem fer fyrir ríkisstjórn Íslands hefur tíðkað það að flissa þegar Græna hagkerfið ber á góma og segir: Ekkert er grænna en torfbæir, vegna þess að þessum fjárlagalið sem halda átti utan um fjölmörg verkefni hefur verið ráðstafað inn á einhvers konar minjavernd þar sem um er að ræða afar verðug verkefni en sannarlega ekki þau sem fjárlagaliðurinn var búinn til utan um til að byrja með. Það er slæmt. Það er ekki bara Ísland eða einhver rauðgræn ríkisstjórn eftirhrunsáranna á Íslandi sem freistaði þess að ná utan um hugsunina um grænt hagkerfi, Norðurlandaráð gerir það líka og sömuleiðis Evrópuríkin. Öll ríki heimsins eru að reyna að skilja hvernig við eigum að þróa hagkerfi og hagvöxt án þess að gengið sé á náttúruauðlindir með þeim hætti að mannkyninu stafi ógn af því. Það er krafan um að hugsa lengra en eitt kjörtímabil í senn. Það er krafan um að hugsa áratugi og jafnvel árhundruð fram í tímann. Þetta var tilraun sem Ísland gerði á erfiðum tímum sem endurómaði pólitíska umræðu um allan heim og við vorum framarlega í því að nálgast þetta verkefni. Þess vegna olli það mér alveg sérstökum vonbrigðum að ný ríkisstjórn, sem hafði og hefur 38 manna meiri hluta hér í þinginu, skyldi nálgast þetta verkefni af slíkri léttúð. Mér þótti það í fullri einlægni mjög miður.

Loftlagsmálin eru heldur ekki forgangsmál. Helmingurinn af Loftlagssjóði, sem settur var á stofn í tengslum við loftslagslöggjöf á síðasta kjörtímabili, er skorinn niður og látinn renna beint í ríkissjóð í stað þess að beina honum til loftslagsvænna þróunarverkefna í þágu þess að tækninni sé beitt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að Ísland geti verið þar sem við viljum að það sé, í forustu fyrir breytta lifnaðarhætti og fyrir tækniþróun og breytingar sem draga beinlínis úr losun. Það er nefnilega þannig að á bak við hagvöxt eru ákaflega flóknir hlutir í sjálfu sér. Þó að hagvöxtur skapist bara af því að peningar hreyfist í hagkerfinu þá getur hann haft svo misjafnan bakgrunn og misjafnar rætur. Það er mikilvægt fyrir okkur öll sem höfum með efnahagsmál og stjórn samfélaga að gera að við áttum okkur á því að hagvöxtur getur verið bæði góður og síðri. Sumir hafa meira að segja gengið svo langt að tala um góðkynja og illkynja hagvöxt. Það skapast nefnilega hagvöxtur af umferðarslysi og það skapast líka hagvöxtur af því að borða ofsalega mikið af óhollum mat eða stunda einhvern ólifnað sem kostar mikla peninga, á meðan það skapar kannski ekki mikinn hagvöxt að sitja heilan dag á steini og horfa út á hafið. Það er ekki endilega það sama, gott samfélag og samfélag sem einkennist af miklum vexti. Grænn hagvöxtur og grænt hagkerfi miða að því að vöxturinn sé góðkynja, hann sé góður fyrir samfélagið.

Þegar á heildina er litið er auðvitað mjög margt í þessu fjárlagafrumvarpi og margt sem rætt hefur verið og farið ágætlega yfir, eins og til að mynda að ójöfnuður eykst í raun með frumvarpinu: Kostnaðarþátttaka sjúklinga eykst, matarskattur hækkar, bókaskattur hækkar, skattur á menningu hækkar. Komið hefur fram að það hefur verið markmið fjármálaráðherra að draga úr þrepaskiptingu tekjuskatts o.s.frv. þannig að það eru ýmsar blikur á lofti sem benda til þess að til standi að samfélagið gliðni enn meira. Það var gríðarlega mikilvægt á síðasta kjörtímabili að við skyldum ná árangri í því að draga úr mismunun í samfélaginu og auka félagslegan jöfnuð. Ég held raunar að ef landinn væri spurður, ef Íslendingar almennt væru spurðir kæmi í ljós að við erum flest þeirrar skoðunar að Ísland eigi að einkennast af félagslegu réttlæti og jöfnuði þar sem er opið og greitt aðgengi að heilbrigðis- og velferðarþjónustu og menntun án tillits til efnahags. Ég held að það sé svona gegnumsneitt það sem okkur finnst og undanskil ég þá ekki þá sem eru kjósendur ríkisstjórnarflokkanna. Hins vegar sjáum við þegar við rýnum frumvarp til fjárlaga að það er ekki endilega svo að allt sem þar er sett fram sé í þágu slíkra markmiða eða jöfnuðar.

Ég hef nú gert það reglulega og stundum úr ræðustól Alþingis að rifja upp einstök textabrot úr samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið. Framfarir og bætt lífskjör á Íslandi hafa byggst á samvinnu og samheldni og til framtíðar munu Íslendingar halda áfram að leysa sameiginlega af hendi helstu verkefni þjóðfélagsins.“

Þetta eru auðvitað orð á blaði og allir voru tiltölulega brattir þarna á Laugarvatni á sumardegi árið 2013, en það verður að segjast eins og er að þetta eru býsna innantóm orð í ljósi þess að menn efna hér ítrekað til ófriðar. Gott dæmi, kannski besta dæmið akkúrat núna, er dæmið um áformin um flutning Fiskistofu þar sem okkur eru kynnt einhvers konar áform og þau eru síðan bara eins og klöppuð í stein. Þeim má ekki hnika með nokkru móti og virðist engu máli skipta hvaða rök eru höfð uppi við ráðherrann, sem er þó úr þeim stjórnmálaflokki sem talar fyrir rökræðum. Hann segir að ekkert hafi breyst og að við ætlum samt að gera þetta. Þetta er svona, leyfi ég mér að segja, gamaldags tuddapólitík sem hlustar ekki heldur ákveður bara og lætur svo vaða áfram. Það kæmi manni kannski ekki á óvart úr þessu horni eða samstarfi þessara tilteknu flokka nema ef vera skyldi vegna þess að sérstaklega er talað um það í samstarfsyfirlýsingunni að menn vilji auka samtakamátt og draga úr tortryggni og sundurlyndi sem einkennt hafi íslenska stjórnmálaumræðu í samfélaginu um nokkurt skeið. Ég vil sérstaklega nefna þátt forsætisráðherra í því sem hefur ítrekað talað niður til þjóðarinnar, gert lítið úr mótmælendum og viðhaft hroka gagnvart einstökum þingmönnum í þingsal og þinginu raunar eins og það leggur sig, þannig að það er ekki trúverðugt.

Virðulegi forseti. Hér hefur auðvitað verið fjallað um mjög margar pólitískar hliðar frumvarpsins og vinnubrögðin sem þar eru viðhöfð, en mig langar til að nefna það sem stungið hefur í eyru í umræðunni um fjárlagafrumvarpið, það er þegar formaður fjárlaganefndar og fleiri koma ítrekað fram eins og fjárlagafrumvarpið eitt sé ekki einungis lagt fram til þingsins til vinnslu heldur ákveði ríkisstjórnin síðan breytingartillögur. Það var raunar svipaður tónn í umræðu um nýjan ráðherra Sjálfstæðisflokksins á dögunum þegar menn töluðu um að formaður Sjálfstæðisflokksins skipaði nýjan ráðherra. Veit fólk ekki að það er þingræði í þessu landi? Veit fólk ekki að það er ekki þannig að einn eða neinn skipi ráðherra, ekki einu sinni í þingflokki Sjálfstæðisflokksins því að þar er það þingflokkurinn sem ákveður hver eigi að gegna ráðherraembætti í umboði þingflokksins. Það sama er þegar við lítum til fjárlagavinnunnar. Það er ekki þannig að breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið séu samþykktar í ríkisstjórn. Úr þeim er unnið á Alþingi og það er Alþingi sem tekur þær til skoðunar og samþykkir þær eða synjar þeim eða breytir þeim. Ég vil biðla til stjórnarmeirihlutans um að halda þessu orðfæri öllu afskaplega vel til haga af því að það skiptir mjög miklu máli í samskiptum við framkvæmdarvaldið að ekki sé látið að því liggja að þar séu teknar ákvarðanir sem lúta að löggjöf.

Ég tók meira að segja eftir því hér á dögunum að talað var um að frumvarp um náttúrupassa hefði verið samþykkt í ríkisstjórn. Það eru engin frumvörp samþykkt í ríkisstjórn. Það er ekki hægt að samþykkja frumvörp í ríkisstjórn. Ríkisstjórn hefur enga stöðu til að samþykkja frumvörp. Ríkisstjórnin getur samþykkt að leggja frumvarp fyrir þingið sem stjórnarfrumvarp og það var samþykkt á þessum fundi að leggja frumvarpið fram til þingsins en fyrst til þingflokka stjórnarflokkanna. Við skulum gæta að því hvernig við tölum um þessa hluti og við skulum líka gæta að því hvernig við tölum um frumvarp til fjárlaga, að einstakir ráðherrar og ríkisstjórnin öll er hér í umboði þingsins og það er þingið sem lýkur meðferð fjárlagafrumvarps, leggur fram breytingartillögur og afgreiðir þær. Það vill svo til að ráðherrarnir eru með atkvæðisrétt þó að sumir séu jafnvel þeirrar skoðunar að svo eigi ekki að vera og það beri að breyta því til að skýra þennan aðskilnað.

Mig langar að nefna í umræðunni um vinnubrögð að ein af breytingartillögum meiri hlutans við fjárlagafrumvarpið er breytingartillaga sem varðar Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið og staða þess hefur verið töluvert rædd hér. Það er náttúrlega þyngra en tárum taki að Ríkisútvarpið hefur því miður búið við gríðarlega mikið hatur eða fjandskap Sjálfstæðisflokksins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur leynt og ljóst hatast við það í texta, í ályktunum o.s.frv. Jafnvel hefur verið ýjað að því að það mætti leggja það niður eða selja það að hluta o.s.frv. Svo kallar þessi sami flokkur oft og einatt eftir einhverri samstöðu um hlutverk Ríkisútvarpsins þegar það hefur verið þannig gegnumsneitt að allir eru sammála um sterkt almannaútvarp nema sjálfstæðismenn. Það hefur verið sagan, þannig hefur það verið að jafnaði, enda lýsti það sér í síðustu löggjöf um Ríkisútvarpið að það voru sjálfstæðismenn einir sem móuðust við þeirri löggjöf. Framsóknarmenn gerðu það ekki.

Fljótlega eftir kosningar breyttist sá tónn dálítið og einstakir framsóknarmenn fóru að amast við Ríkisútvarpinu og gerðu það, fannst mér, með afar ósmekklegum hætti. Vil ég þá sérstaklega vísa í orð formanns fjárlaganefndar þegar hún tvinnaði saman umfjöllun í Ríkisútvarpinu við það að hún væri með einhvers konar fjárstjórnarvald, þannig að það var verulega, óþægilega nálægt því að um beinar hótanir væri að ræða. Sá tónn hefur farið hækkandi úr herbúðum Framsóknar og hv. þm. Frosti Sigurjónsson var í forustu fyrir Facebook-síðu sem hafði það markmið að hafa eftirlit með Ríkisútvarpinu, að sögn, og forsætisráðherra skrifaði mjög harða ádeilugrein á Ríkisútvarpið. En nú ber svo við að ný stjórn Ríkisútvarpsins, sem er raunar þannig saman sett að sex af níu í henni eru fulltrúar meiri hlutans, beinir því mjög eindregið til Alþingis að þingið standi vörð um Ríkisútvarpið með því að falla frá lækkun á útvarpsgjaldi. Áskorun var send á alla alþingismenn og fagna ég því sérstaklega. Mér finnst það benda til þess að stjórn Ríkisútvarpsins sé vel mönnuð og ekki bara af hendi stjórnarandstöðu heldur ekki síður af hendi stjórnarflokkanna. Það er greinilegt að þessir fulltrúar líta svo á að þeir séu fyrst og fremst þar fyrir Ríkisútvarpið og því ber að fagna.

Í kjölfarið á þessari tilkynningu og þeirri áskorun sem var send á alla alþingismenn, þar sem stjórnin segir beinlínis að í útvarpslögum séu skyldur lagðar á herðar Ríkisútvarpsins, þær séu útlistaðar í þjónustusamningi við ráðuneytið og til að standa undir því þurfi einfaldlega fullt útvarpsgjald og að það þurfi að renna síðan til útvarpsins eins og það leggur sig, þá heyrðist í stöku þingmönnum Framsóknarflokksins. Ég vil fyrst nefna hv. þm. Karl Garðarsson, ég vil þakka honum sérstaklega fyrir orð hans af því að þetta snýst ekki bara um innihald málsins. Hann segir að það sé þroskamerki að skipta um skoðun og ég tek undir það. Hv. þingmaður telur eftir að hafa hugleitt málið betur að rétt sé að stíga varlega til jarðar og biður um að menn skoði mjög vel þessa áskorun, það megi ekki vanmeta þetta mikla menningarhlutverk Ríkisútvarpsins. Svo er þarna líka um að ræða lýðræðis- og almannaþjónustuhlutverk. Að vísu auglýsir Karl eftir framtíðarsýn fyrir Ríkisútvarpið og segir hana ekki vera til, en ég geri ráð fyrir því að hann hafi fundið hana síðan því að hún er á vef Ríkisútvarpsins og í 1. gr. markmiðsgrein laganna um Ríkisútvarpið er líka að finna markmið, hlutverk og skyldur í lögum. Stefnan sem felur í sér framtíðarsýnina er sett fram til ársins 2016 og hún er í gildi.

Síðan gerist það á þingfundi í dag að hv. þingmaður, forseti Norðurlandaráðs og formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Höskuldur Þórhallsson, er á svipuðu róli. Hann biðlar til meiri hluta fjárlaganefndar um að skoða þessa áskorun stjórnarinnar vel og er jafnframt þeirrar skoðunar að þarna kunni að vera ákveðin hætta á ferðum, þ.e. að höggvið sé svo nærri þessu hlutverki Ríkisútvarpsins að ekki verði við það unað öðruvísi en beinlínis að breyta lögum, þ.e. þrengja hlutverk þess svo verulega að hér sé um að ræða allt aðra stöðu. Slíkt frumvarp hefur hvergi verið í smíðum eða í pípunum mér vitanlega þannig að ég fagna þessu sérstaklega og hvet okkur öll sem erum þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið sé mikilvægt sem menningarstofnun en ekki síður sem lýðræðisstofnun, að standa með hinni þverpólitísku stjórn og öðrum þeim sem láta sig þetta mál varða. Viðhorf Sjálfstæðisflokksins hafa sem betur fer verið viðhorf minni hlutans í samfélaginu og ég held að það megi vera svo áfram. Lengi vel var það meira að segja þannig að öflugir talsmenn Sjálfstæðisflokksins voru þó líka miklir stuðningsmenn Ríkisútvarpsins.

Mig langar að gera aðeins að umtalsefni að hin tímabundna fjárheimild sem lögð er til í breytingartillögu meiri hlutans og útgreiðslan eins og hún er lögð til í nefndarálitinu og í breytingartillögu er háð skilyrðum. Ég fer með það orðrétt, með leyfi forseta:

„Þessi tímabundna fjárheimild sem lögð er til hér og útgreiðsla hennar til Ríkisútvarpsins er háð skilyrðum um að á vegum stjórnar og stjórnenda félagsins fari fram vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu og að haldbærar rekstraráætlanir verði gerðar þar sem fram komi hvernig starfsemi stofnunarinnar verði komið á réttan kjöl og hún verði sjálfbær til frambúðar. Þær áætlanir um starfsemina þurfa að liggja fyrir eigi síðar en í lok mars 2015 til yfirferðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ef mat ráðuneytisins verður að þær áætlanir dugi ekki til þess að ná markmiðum um sjálfbæran rekstur stofnunarinnar er áformað að fjárheimildin verði felld niður í fjáraukalögum fyrir árið 2015.“

Þetta er bara bein hótun. Hér er beinlínis sagt: Ef þið gerið ekki si og svo þá verða peningarnir teknir aftur. Einhver kynni nú að segja: Er það ekki gott? Er þetta ekki bara skýrt og er þá ekki gott að útvarpið viti að hverju það gengur? En ég vil velta upp þeirri spurningu og biðja hv. fjárlaganefnd og forustu hennar í fyllstu vinsemd að velta því fyrir sér á hvaða lagagrunni meiri hluti fjárlaganefndar gerir slíka tillögu. Er það lögmætt að meiri hluti fjárlaganefndar geri tillögu af þessu tagi þegar um er að ræða opinbert hlutafélag sem hefur stjórn og stjórnin hefur beinlínis það hlutverk að fara með fjárstjórnarvald stofnunarinnar, forgangsraða fé og halda utan um áætlun o.s.frv., eins og fram kemur í lögum um Ríkisútvarpið? Gengur það þá að fjárlaganefnd hlutist til um með hvaða hætti einstakar krónur eigi að vera, hvernig þeim eigi að vera forgangsraðað eða fyrir komið í rekstri stofnunarinnar? Veltir maður þá fyrir sér: Til hvers er stjórnin? Nýtur hún ekki trausts? Þetta er í sjálfu sér mikilvægur punktur. Þó má í því samhengi benda á umræðu sem aðeins hefur verið í fjölmiðlum í tengslum við arðgreiðslu úr Isavia vegna þess að fram kemur í tillögu meiri hluta fjárlaganefndar að þar er gert ráð fyrir að greiddur verði út úr Isavia arður, tiltekin upphæð, og forstjóri Isavia segir bara: Já, það er ágætt, fjárlaganefnd getur lýst vilja sínum. Fjárlaganefnd getur sagt: Já, við teldum það gott að þessar 500 millj. kr. kæmu úr Isavia. En það er bara þannig, segir forstjórinn, að fjárlaganefnd ræður því ekki. Ákvarðanir um arðgreiðslur eru teknar á aðalfundi félagsins og sá næsti er í mars á næsta ári. Við getum alveg skoðað vilja fjárlaganefndar eða þingsins eftir því sem verða vill, segir forstjóri Isavia, en það er ekki þannig að fjárlaganefnd geti bara sagt: Þarna er peningur og við skulum bara ráðstafa honum inn í fjárlög. Það eru nákvæmlega sömu rök sem eiga við að því er varðar Ríkisútvarpið.

Það er mjög mikilvægt að við gætum að þessum þáttum, að það sé a.m.k. þannig að ekki sé beinlínis verið að ráðskast með það sem ekki heyrir undir verkefni og viðfangsefni fjárlaganefndar. Síðan getum við haft skoðanir á því hvort það sé gott eða ekki gott að Ríkisútvarpið sé ohf. en ekki bara stofnun, hvort það sé gott eða ekki gott að hún sé með stjórn en heyri ekki beint undir ráðherra o.s.frv. En á meðan þetta er svona þá gengur ekki að fjárlaganefnd láti eins og hún geti sagt stjórninni fyrir verkum með þessum hætti, hún hefur ekkert umboð til þess. Fjárlaganefnd hefur ekkert umboð til þess. Það er hvergi getið um það í lögum að fjárlaganefnd geti hlutast til um þessa þætti. Hún getur auðvitað sagt: Við erum með fjárstjórnarvaldið, við getum lagt það til við þingið að peningarnir verði dregnir aftur til baka. En það fer ekki vel á því ef við ætlum að gæta að þeim prinsippum sem þarna eru undir.

Á sama hátt, og ég held að það sé lærdómur fyrir okkur öll og til umhugsunar, er gríðarlega algengt að hin endanlega stefnumörkun sjáist ekki í einstökum málaflokkum fyrr en í fjárlagafrumvarpinu sjálfu og hefur verið fjallað sérstaklega um það hér varðandi samgöngumál. Samgönguáætlun er eiginlega orðin eitthvert plagg sem er síðan raungert að litlum hluta í gegnum fjárlög. Þá er það alltaf spurning: Hvað er það í raun og veru sem þingið hefur ákveðið? Getur þingið tekið eina ákvörðun í samgönguáætlun og síðan gerist eitthvað annað eða takmarkaðra í gegnum fjárlagafrumvarpið? Gott og vel. Þar erum við þá a.m.k. með einhverja heildarsýn sem við viljum sjá, en fjárlagafrumvarpið breytir ekki forgangsröðuninni. Fjárlagafrumvarpið segir: Við komumst kannski ekki alla leið en við komumst áleiðis.

En það er svolítið öðruvísi þegar stefnumörkun fer fram í gegnum fjárlagafrumvarpið, eins og til að mynda varðandi framhaldsskólann, þegar framhaldsskólanum er í raun lokað fyrir 25 ára og eldri í texta sem er mjög lítið gagnsær í fjárlagafrumvarpinu. Það er til dæmis ekkert um það í hvítbók menntamálaráðherra, það hefur ekki verið í neinum fundaherferðum menntamálaráðherra, ekki á neinum opnum fundum, það hefur aldrei verið rætt í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem ræða á menntamál, það hefur aldrei verið farið yfir það á vettvangi þess samtals sem ætti að vera milli framkvæmdarvaldsins og þingsins þegar við tölum um eðlisbreytingar eða verulegar stefnubreytingar í rekstri samfélagsins. Þarna er verið að taka ákvörðun sem breytir mjög miklu um tilfinninguna fyrir því að vera til á Íslandi, en þá gerist það bara í einhverjum kafla í fjárlagafrumvarpinu. Þetta er dæmi um verklag sem er vont vegna þess að þetta er leið til þess að taka ákvarðanir með afar ólýðræðislegum og ógegnsæjum hætti og það er kúnstugt að vera nefndarmaður í einhverri nefnd sem fjalla á um menntamál og tillagan kemur aldrei þangað. Þar eru allir þingmennirnir sem brenna fyrir því að ræða um menntamál, en tilllagan er bara aldrei rædd þar heldur kemur hún fram á einhverri blaðsíðu í fjárlagafrumvarpinu og er rædd á fundum fjárlaganefndar. Slíkt verklag getur ekki talist gott.

Ég vil ljúka þessum hluta ræðu minnar í umræðum um útvarpið og útvarpsgjaldið með því að skora á þingmenn að líta aðeins inn á við og standa með Ríkisútvarpinu þrátt fyrir það sem áður hefur verið sagt eða gert og hlusta eftir því sem bæði stjórnarandstaðan hefur sagt og einstakir stuðningsmenn Ríkisútvarpsins en ekki síst hin þverpólitíska stjórn.

Ef við lítum á viðbrögðin við fjárlagafrumvarpinu, því að ég hef rætt almennt um hvernig fjárlagafrumvarpið og tengd frumvörp auka frekar ójöfnuð í samfélaginu heldur en hitt, þá er einfalt að horfa til ýmissa hópa, alveg sama hvort það eru aðilar vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingin, Öryrkjabandalagið eða fleiri slíkir, áhyggjurnar eru í raun allar þær sömu og er raunar sama hvar mann ber niður, allir nefna fyrst hækkun á matarskatti sem kemur verst við þá tekjulægri. Það verður ekki rofið úr samhengi við útgjaldahluta fjárlagafrumvarpsins. Menn nefna styttingu á bótatíma atvinnulausra, sem er í frumvarpi sem bíður enn 2. umr., og Alþýðusambandið hefur einnig áhyggjur af því að ríkisvaldið komi sér undan því að greiða umsamið framlag til starfsendurhæfingarsjóðs og af brottfalli á framlögum til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða og auknum kostnaði sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Það hefur allt verið rætt hér og vel farið yfir. Einn þáttur hefur þó lítið verið ræddur hér en verkalýðshreyfingin hefur nefnt hann, þ.e. húsnæðismálin. Í þessu plaggi sem borið er uppi af sömu stjórnmálaflokkum og mynda hér meiri hluta í þinginu og sömu stjórnmálaflokkum sem tekið hafa ákvörðun um ráðstöfun 80 milljarða til ákveðinna heimila í landinu eftir tilteknum reglum, eru engin framlög til úrbóta í húsnæðismálum, hvorki í almenna húsnæðiskerfinu né til uppbyggingar félagslegs húsnæðis. Það er ekkert að finna í frumvarpinu um það. Ég velti fyrir mér hvað ríkisstjórnin geri ráð fyrir löngu kjörtímabili. Hvenær fáum við að sjá eitthvað sem snýst um í raun að koma til móts við þau heimili sem ekki hafa notið góðs af skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarflokkana?

Ef menn hefðu haldið því fram að það stæði ekki til þá gott og vel en hér hefur ítrekað verið sagt að í farvatninu væru breytingar sérstaklega í þágu þeirra sem leigja eða þeirra sem ekki eru einu sinni fluttir að heiman. Það er auðvitað alveg sama hvernig á hlutina er litið, það er alltaf þannig að ef peningar eru færðir eitthvert þá koma þeir frá þeim sem ekki fá þá. Hverjir fá ekki skerf af þessum 80 milljörðum? Það er unga fólkið, það eru leigjendur, það eru öryrkjar og það eru einstæðir foreldrar og það eru þeir sem ekki eiga eitthvað, vegna þess að til að skulda þá þurfa menn að eiga. Þetta er auðvitað skuld sem við beinum inn í framtíðina og til barna okkar og barnabarna og verður enn og aftur til þess að auka félagslegt misrétti í þessu landi. Ég vil ganga svo langt að segja að eftir þessar aðgerðir ríkisstjórnarflokkanna og þennan hluta af kosningaloforði Framsóknarflokksins, þetta brot, geta þessir flokkar ekki talað um ábyrga efnahagsstjórn, það er bara ekki hægt, það gengur ekki saman. Það hljómar bara eins og grín ef menn ætla að halda því fram að þeir séu ábyrgir. Það gekk meira að segja svo langt að hv. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Oddgeir Ottesen, sagði: Ef ein króna fer til einhvers sem er sterkríkur og getur borgað allt sem hann þarf að borga þá er þetta misheppnuð aðgerð — ein króna. Það er því ekki hægt að rökstyðja þessa aðgerð annars vegar og tala síðan hástemmt um ábyrga efnahagsstjórn eins og menn reyna að gera hérna.

Það stefnir í mjög erfiða kjarasamninga á vinnumarkaði og að sumu leyti miklu erfiðari átök á vinnumarkaði en við höfum séð um langan tíma. Sú stefnumörkun sem uppi er í fjárlagafrumvarpinu gerir þá samninga og þá stöðu miklu erfiðari. En það er alveg ljóst að þegar búið er að sýna á spilin að því er varðar hækkun verðs á matvælum og heilbrigðisþjónustu þýðir það auknar launakröfur, það gefur augaleið. Það verða að koma fram sérstakar launahækkanir til að koma til móts við það til viðbótar nauðsynlegum leiðréttingum. Þannig er það bara og þannig hefur það alltaf verið.

Að lokum langar mig til að nefna, vegna þess að hér höfum við talað um læknaverkfallið og í raun alveg ótrúlegt skeytingarleysi ríkisstjórnarflokkanna þegar kemur að þeirri umræðu, að menn tala eins og það eigi annaðhvort að leysa sig sjálft eða þá að lægst launuðu stéttirnar í landinu eigi að bera ábyrgð á því. Skorturinn í framtíðarsýn í heilbrigðiskerfinu gæti gert það að verkum að íslenska heilbrigðiskerfið, sem við höfum sammælst um að við eigum hér, molni varanlega niður. Það eru því blikur á lofti og meiri og alvarlegri breytingar á samfélaginu en við höfum séð um langa hríð. Við höfum rætt mál eins og Ríkisútvarpið, eins og heilbrigðiskerfið, eins og almennar breytingar á jöfnuði í landinu. Allt þetta er í raun og veru samhljóma og alvarleg skref í áttina frá jöfnuði til misréttis. Eitt af því sem rætt hefur verið alveg síðustu daga og raunar verið nánast það eina sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur talað um og talað fyrir, er náttúrupassi. Það er enn ein dellan, verð ég að leyfa mér að segja, þar sem viðfangsefnið er gert svo flókið og svo kauðalega úr garði og samt sett fram án þess að samstaða sé um það á nokkurn hátt. Og þegar upp kemur sú umræða í samfélaginu að til standi í fúlustu alvöru að Íslendingar þurfi að hafa náttúrupassa til að koma á Þingvöll er alveg augljóst að ríkisstjórnin er komin mjög alvarlega úr sambandi við kjósendur sína og sitt fólk.

Ég ætla að segja í lokin að ég mun leggja fram tillögu í Þingvallanefnd þar sem ég legg til að nefndin mótmæli náttúrupassa. Ég held að það sé verkefni Þingvallanefndar að hlutast til um að gæta að því að Þingvellir standi áfram undir nafni sem þjóðgarður og sé staður sem sé til fyrir þjóðina alla alltaf eins og sá staður hefur verið um aldir, sem sögulegur staður en ekki síður sem náttúrugersemi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú náð að fara yfir nokkur álitamál og ég tek eftir því þegar ég er komin á síðustu mínútu ræðu minnar að ég hef enn ekki rætt samgöngumál, ég hef heldur ekki rætt umhverfismál og það eru þó nokkrir aðrir málaflokkar sem ég hef ekki náð að komast yfir, en það verður að hafa sinn gang. Það eru margar góðar ræður sem hafa verið haldnar hér og kann að vera að þær verði eitthvað fleiri.