144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:54]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þingmanninum, þetta er afar alvarleg staða og það má sannarlega velta því fyrir sér hvort það sé verjandi að við göngum fá borði án þess að það liggi fyrir með hvaða hætti leysa á verkfall lækna.

En ég tók eftir því þegar læknar komu á fund velferðarnefndar að þeirra áhyggjur snerust ekki einungis í raun og veru um launakjör heldur ekki síður um skort á framtíðarsýn fyrir heilbrigðiskerfið í heild, fyrir Landspítalann o.s.frv. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir bauð fram vit og hugmyndaflug stjórnarandstöðunnar til að við gætum sest saman yfir það hvernig við ætluðum að fjármagna nýjan Landspítala o.s.frv. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagðist ekki þurfa á því að halda, ríkisstjórnin hefði ágætisvald á málinu. Það finnst mér vera áhyggjuefni. Þetta mál er af þeirri stærð að átakanálgun hæfir því bara engan veginn.