144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sleppti því alveg að svara því af hverju síðasta ríkisstjórn forgangsraðaði í þágu undirstofnana umhverfisráðuneytisins en ekki heilbrigðisþjónustunnar. Þær tölur liggja fyrir. Þær eru í ríkisreikningi. Það er mjög ódýrt að koma núna og segja að það eigi að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Það getur enginn haldið því fram að síðasta ríkisstjórn hafi gert það. Og koma hér og tala um að það sé vilji hv. þingmanns er mjög ódýrt.

Virðulegi forseti. Ég var hér að spyrja einnar spurningar. Er það hatur að setja meira í Ríkisútvarpið en sem nemur tekjum af útvarpsgjaldinu? Er það skilgreining á hatri? Ég er að spyrja hv. þingmann að því. Er það þá sérstök elska þegar menn, eins og síðasta ríkisstjórn gerði, setja minna en sem nemur útvarpsgjaldinu til viðkomandi stofnunar? Því þessar tölur liggja fyrir. Þær eru í ríkisreikningi sem skrifað er upp á af Ríkisendurskoðun.

Ég bara ítreka það: (Forseti hringir.) Þetta kemur mjög á óvart, þessi málflutningur, miðað við staðreyndir mála.