144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:03]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held einmitt að það sé mjög mikilvægt að virða það fyrirkomulag að Ríkisútvarpið er fjármagnað með nefskatti. Þetta er fyrirkomulag sem á að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Ég varpa þessari spurningu til hv. þingmanns: Hefur þetta krukk með nefskattinn, og nú síðustu tíðindi í fjáraukanum og hvernig ríkisstjórnin er að nálgast þetta mál allt saman — eru ekki stærstu tíðindin í því að það er í raun verið að vega að þeirri meginhugsun að Ríkisútvarpið sé sjálfstætt?

Krafa Ríkisútvarpsins er frekar hógvær að mínu viti. Ríkisútvarpið er einfaldlega að segja: Hafið nefskattinn óbreyttan, hækkið hann ekki einu sinni, bara óbreyttan og við fáum hann bara óskertan eins og alltaf var lagt upp með.

Ég upplifi þetta sem mjög hógværa kröfu og mjög skiljanlega. Hún er algjörlega í anda allrar heildarhugsunarinnar um þetta fyrirkomulag allt saman. Ríkisútvarpið (Forseti hringir.) er í þessu dæmi ekki einu sinni að ræða um lífeyrisskuldbindingarnar sem var velt á herðar stofnunarinnar. Þannig að það er einungis þessi hógværa (Forseti hringir.) krafa sem rímar við allt umhverfið í heild sinni.