144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:05]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir ágæta ræðu áðan.

Hún gerði meðal annars að umtalsefni stöðuna í læknaverkfallinu og lýsti yfir miklum áhyggjum af stöðu mála þar. Ég get alveg tekið undir að það er náttúrlega grafalvarleg staða sem þar er komin upp og þetta verkfall hefur staðið yfir allt of lengi. Fram hefur komið í því máli að ein af röksemdunum fyrir því að hækka laun lækna er að þeir geti fengið betur borgaða vinnu erlendis þar sem standa til boða störf með mun betri kjörum en hérlendis. Það stefnir í að hér verði flótti, landflótti lækna, þannig að þeir fái sér störf erlendis.

Nú hefur komið fram tillaga, eins konar þjóðarsátt sem byggir á því að læknar verði kannski teknir út fyrir sviga þannig að þeir fái meiri launahækkanir en aðrir. Forsætisráðherra hefur meðal annars viðrað þá hugmynd. Er þetta ekki eitthvað sem hv. þingmanni hugnast vel, þ.e. við tökum (Forseti hringir.) þessa stétt út, látum þá fá aðeins meira en aðra og tryggjum þannig að ekki verði víxlverkun launahækkana og verðbólguhækkana?