144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna og tek undir að staðan í læknaverkfallinu er afar alvarleg. Veruleikinn er auðvitað að verða sá í þeirri stétt og ekki bara henni heldur líka fleirum að atvinnusvæðin eru orðin stærri. Við erum í rauninni að tala jafnvel um öll Norðurlöndin, að fólk lifir og starfar á miklu, miklu stærri svæðum en var. Fólk flytur sig á milli æviskeiða og milli tímabila miklu meira en það gerði.

Ég held að afar mikilvægt sé í þessu samhengi að halda því til haga að læknar og vera þeirra hér, sterkt heilbrigðiskerfi, snýst líka um kjör allra Íslendinga, þ.e. lífskjör okkar allra. Lífskjör okkar allra snúast líka um það að við höfum sterkt og öruggt heilbrigðiskerfi og lækna sem vilja vera hér. Það varðar því ekki bara starfskjör þeirra ein og sér heldur líka lífskjör okkar hinna. Það þarf að nálgast það með þeim hætti líka. Þetta er afar flókin staða. Ég ætla ekki að ætla mér þá dul að ég geti staðið hér og leyst hana.

Mig langar af því að við eigum hér í orðaskiptum að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að hægt sé að breyta fjárlagafrumvarpinu milli 2. og 3. umr. að því er (Forseti hringir.) varðar Ríkisútvarpið.