144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið væri ég í góðri stöðu ef ég gæti leyst það viðfangsefni sem hv. þingmaður ber hér á borð. Ég fór yfir það í ræðu minni áðan að staðan á vinnumarkaði er mjög flókin og ekki bara í þessu efni. Nú talar verkalýðshreyfingin, Alþýðusambandið og BSRB um að það þurfi að koma til sérstakar launahækkanir til að koma til móts við hækkun á matarskatti og til að koma til móts við aukna kostnaðarþátttöku sjúklinga. Þannig að alls staðar eru í raun og veru blikur á lofti.

Af hverju í ósköpunum ætti allur almenningur að sætta sig við að ein stétt fari lengra fram úr en aðrir í samfélagi þar sem laun eru lág? Þau eru lág á Íslandi og kaupmáttur er ekki góður á Íslandi og ekki hár, þannig að öll laun þurfa í raun að hækka á Íslandi ef við eigum að vera samanburðarhæf við löndin í kringum okkur. Það er veruleikinn, lífskjör eru því miður ekki nógu hagstæð fyrir ungt fólk sem er að bera saman valkostina hér við löndin í kringum okkur. Það er áhyggjuefni í miklu stærra (Forseti hringir.) samhengi en sem varðar þessa tilteknu en mjög svo alvarlegu deilu.