144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja þingmanninn hvað honum finnst — ef hann væri kjósandi Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins, hann hefur nú einu sinni verið í Framsóknarflokknum — um þau loforð sem flokkarnir gáfu fyrir síðustu kosningar.

Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins sagði um heilbrigðismál að það væri leiðarljós að heilbrigðisstarfsfólkið okkar væri hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins. Hjá Framsóknarflokknum var kosningaloforðið þannig:

„Framsókn leggur ríka áherslu á að verðmæti heilbrigðisþjónustunnar felst fyrst og fremst í mannauðnum og því þarf að bæta starfsumhverfi og kjör heilbrigðisstétta og draga þannig úr brotthvarfi innan stéttarinnar.“

Nú stöndum við frammi fyrir fyrsta verkfalli í sögu landsins hjá læknum. Þegar ég heyrði það í dag þá varð ég steinhissa. Mig óraði ekki fyrir því. En þá fór ég að hugsa aðeins betur. Mann óraði ekki fyrir því, maður hafði ekkert heyrt um það, vegna þess að læknar hafa aldrei farið í verkfall, þeir hafa alltaf staðið vaktina. Meðan aðrar stéttir hafa farið í verkfall trekk í trekk hafa læknar á Íslandi ekki farið í verkfall.

Mig langar að spyrja þingmanninn í því ljósi og í ljósi þessara kosningaloforða — og í ljósi þess að í stjórnarsáttmála flokkanna segir að íslenskt heilbrigðiskerfi verði að vera samkeppnishæft við nágrannalöndin, og í ljósi þess að 90% þjóðarinnar vilja setja heilbrigðiskerfið í fyrsta og annað sæti, menntakerfið er þar á eftir með 44%. Þannig að það er klárlega afgerandi meiri hluti þjóðarinnar. Hvað finnst honum, og 90% kjósenda þeirra flokka eru líka með heilbrigðiskerfið í fyrsta eða öðru sæti, ef hann væri kjósandi þessara flokka, mundi honum finnast að þeir væru að forgangsraða eins og þeir hefðu lofað?