144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:03]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta gríðarlega áhugaverð umræða og ég gæti rætt þetta langt fram á kvöld. Ég er ekki að segja, það fylgir ekki endilega orðunum að ég vilji fækka opinberum störfum en ef það fylgir með í betri kerfum þá held ég að það sé bara ágætt mál og ef fjölbreytt atvinnulíf fylgir líka með þá held ég að allir fái störf við sitt hæfi, sem er einkenni á góðu þjóðfélagi, en ég er ekki að tala um það endilega. Ég er til dæmis að tala um læknadeiluna, ég upplifi hana núna þannig þar sem ég heyri í læknum segja og maður les í blöðum: Við vinnum bara svo rosalega mikið til að fá sambærilegar tekjur og í nágrannalöndunum. Það er þetta. Þeir eiga að geta unnið minna og fengið sömu tekjur eða hreinlega haft einhvern tíma fyrir til dæmis rannsóknir. Við eigum að bera saman starfskjör lækna hér og lækna í Svíþjóð sem hafa góðan frítíma og góðan tíma fyrir rannsóknir í störfum sínum sem er alveg gríðarlega mikilvægt. En þennan mun, mér finnst best að nálgast hann og komast að því hvað er að út frá framleiðnihugtakinu. Það er eitthvað að í þessu kerfi.