144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:12]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég nefndi það í fyrra þegar við vorum að ræða hérna fjárlögin, í fyrsta skipti sem ég tók þátt í svoleiðis umræðu, að þau væru eins og kínverska fyrir mér. Ári seinna hefur maður aðeins slípast í þessu en þetta er samt ótrúlega torskilið oft og tíðum fyrir óvanan mann eins og mig. Ég hef alltaf mjög gaman af umræðum um fjárlög. Það gerist mikið og er oft líf og fjör í salnum þó að það sé ekki alveg þannig núna. Nú er frekar fámennt en góðmennt.

Þegar maður veltir fjárlögum og stjórnmálum yfir höfuð fyrir sér þá fer maður að hugsa: Út á hvað ganga stjórnmálin? Ég hef oft komið hingað upp í ræðu og sagt hvað mér finnst um stjórnmál og út á hvað þau eigi að ganga. Ég hef alla mína visku frá íslenskum heimspekingum sem ég lít upp til eins og dr. Páli Skúlasyni, Gunnari Hersveini og fleirum sem hafa skilgreint stjórnmál og talað um út á hvað þau eigi að ganga. Þau eiga fyrst og fremst að ganga út á það að við allar ákvarðanir sem við tökum, um öll lög og frumvörp, eigi að ganga út frá því að þau séu til hagsbóta fyrir alla í samfélaginu, að allir skuli njóta jafnt og kannski sumir jafnar, ef ég má segja svo.

Mér finnst lykilhugtakið í stjórnmálum vera almannaheill. Ég ætla ekki að tala stjórnvöld niður í ár út af þessu fjárlagafrumvarpi, þetta er fjárlagafrumvarpið þeirra. Þau hafa örugglega lagt töluverða vinnu í það miðað við þann ofboðslega tíma sem hefur farið í málið. Það eru að verða komnir 90 dagar síðan 1. umr. fór fram um fjárlög, þ.e. frá því að þau voru lögð fram. Maður vonaðist til þess að þau kæmu fyrr inn og að vinnan yrði kannski vandaðri.

Þegar ég lít yfir þetta og yfir síðasta ár þá eru það heilbrigðis- og menntamál sem eru hin dæmigerðu mál sem við erum alltaf að tala um. Mér finnst þau vera lykilmál í samfélaginu. Það sem snertir mann einna mest þessa dagana eru heilbrigðismálin. Maður veltir fyrir sér á hvaða leið við erum með heilbrigðiskerfið. Það er alveg hægt að gleðjast yfir því að bæta skuli milljarði við í heilbrigðiskerfið og Landspítalann, en það er bara ekki nóg. Það hefur komið fram í fjölmörgum ræðum þingmanna hér í dag að það sé ekki nóg. Við erum að tala um Landspítalann.

Ég var fyrir stuttu úti í Vestmannaeyjum. Allir þingmenn kjördæmisins fóru þangað og hittu bæjarstjórnina og ræddu hin og þessi mál. Þar er líka mjög alvarlegt ástand á sjúkrahúsinu. Þar eru fimm læknar og þeir eru allir að velta því fyrir sér að segja upp. Hvað gerist í samfélagi eins og Vestmannaeyjum ef allir læknar segja upp? Það hefur verið skorið alveg heiftarlega niður til þeirra. Ég velti líka fyrir mér í svona umræðu þegar ég sit hérna í salnum og fylgist með því sem er að gerast. Hvað kostar það okkur að leggja ekki meiri peninga í þetta? Hvað kostar það okkur í framtíðinni ef við tökum ekki á þessu strax?

Stjórnarþingmenn hafa farið mikinn, sem er kannski ekkert skrýtið, og bent á að hér sé allt á bullandi uppleið, aukinn hagvöxtur. Svo komu allt í einu fréttir í dag um að hann væri töluvert mikið minni en spár sögðu til um. Það er allt á uppleið. Af hverju er þá þessi ofboðslega óánægja í samfélaginu? Af hverju eru allir svona ofboðslega óánægðir og svona mikill kurr og reiði? Ég fann það í kjördæmaviku — mér fannst það í fyrra t.d. þegar ég var nýr þingmaður og fór í kjördæmi að hitta fólk, hlusta á raddir fólksins, það er okkar að hlusta á fólkið, eftir hjartslættinum í samfélaginu — að það eru allir blússandi reiðir. Ég hef sagt það áður hérna í ræðu að á ársfundi landshlutasamtakanna á Suðurlandi vorum við þingmenn kjördæmisins kallaðir liðleskjur, við værum handónýtir, við værum ekki að gera nokkurn skapaðan hlut og menn þyrftu hugsanlega að leita í önnur kjördæmi eftir þingmönnum til að vinna fyrir sig. Samt er okkar kjördæmi vel sett með átta stjórnarþingmenn og tvo ráðherra þaðan. Svona er þetta. Það virðist vera ofboðsleg reiði og beiskja í samfélaginu, sem er ekki gott vegna þess að tekjur hafa verið að aukast. Eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson nefndi áðan þá komu 16 milljarðar inn í arð frá Landsbankanum og án þess að ræða það nokkuð frekar við þing — hugsanlega þurfa þeir ekkert að ræða það við okkur, þeir bara ákveða þetta — var peningnum bara skellt í skuldaleiðréttinguna heimsfrægu í staðinn fyrir að nota þá til að styrkja menntakerfið, heilbrigðiskerfið, grunnstoðir samfélagsins, og borga niður skuldir.

Á hverjum einasta degi sem maður horfir á fréttir er verið að ræða Landspítalann og þá alvarlegu stöðu sem er komin upp og ekki síst læknaverkfallið sem er náttúrlega alveg hreint ótrúlegt. Mér finnst stjórnvöld sýna svo mikið tómlæti. Ef flugvirkjar á Keflavíkurflugvelli væru komnir í verkfall þá mundu menn bara kalla þing saman og setja lög. Hér erum við að tala um líf og limi fólks og gríðarlega biðlista eftir aðgerðum sem hrannast upp. Hvað erum við að gera? Af hverju er ekki gripið inn í og gengið frá þessu? Af hverju gera stjórnvöld ekki ráð fyrir fjármagni í þetta? Við erum að missa læknana okkar úr landi, það er staðreynd. Maður hlustar á fréttir á hverjum einasta degi þar sem talað er um einhvern sérfræðing á Landspítalanum sem er búinn að gefast upp og fer ef ekkert verður gert. Ég er ofsalega sorgmæddur yfir þessu.

Ég ætla ekki að skammast og rífast við ríkjandi stjórnvöld. Þau ráða, það er þannig. Þessir flokkar voru kosnir til þess. Við megum þó alla vega láta í okkur heyra og segja hvað okkur finnst og hvetja þá til þess að skoða hlutina upp á nýtt og velta því fyrir sér hvort þetta sé betra upp á framtíðina að gera. Hvað kostar það okkur að sleppa því að semja við lækna? Hvað kostar það okkur í framtíðinni að endurnýja ekki tækjakost og fara í það að byggja nýjan spítala?

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem hefur fylgst með okkur á þingi að við erum algjörlega á móti skuldaniðurfellingunni og höfum alltaf verið. Þetta var loforð Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokkurinn kokgleypti það og samþykkti það þótt hann væri algjörlega á móti því í kosningabaráttunni. Það er svo sem ekkert nýtt. Það stendur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að Geir Haarde hafi sagt árið 2003, að mig minnir, þegar þeir voru að semja um 90% lánin sem Sjálfstæðisflokknum fannst alveg galið, að þeir hafi samþykkt það til þess að samstarfið gæti haldið áfram, sem er mjög sorglegt.

Ég velti líka fyrir mér: Af hverju leggjum við ekki meira í forvarnir? Ég var á fundi í gær með prófessor sem nefndi að 80% þeirra sem leggjast inn á Landspítalann gerðu það út af lífstílssjúkdómum. Við gætum sparað gríðarlega í heilbrigðiskerfinu með auknum forvörnum, bæði hjá unga fólkinu og ekki síst eldra fólki. Hann sýndi okkur rannsókn sem hann gerði, sem sýndi fram á gríðarlegar framfarir eldra fólks þegar það fór að hreyfa sig og fór í styrktarþjálfun og annað. Af hverju leggjum við ekki meiri peninga í þetta? Af hverju eru ekki settir meiri peningar í lýðheilsusjóð?

Ég fór í dag upp á Stórhöfða þar sem var verið að opna starfsemi Götusmiðjunnar aftur. Þarna eru sjálfboðaliðar sem fara út í samfélagið og bjarga ungu fólki sem býr á götunni á Íslandi, fólki sem er búið að missa algjörlega fótanna í eiturlyfjaneyslu og nær sér ekki á strik og er á götunni. Mér var sagt að á þessu ári væru átta ungar manneskjur dánar. Hversu mikið áfall er það og tap og sóun fyrir íslenska þjóð sem er ekki nema 320 þúsund manns? Þetta er grátlegt. Við tölum eiginlega aldrei um þessi mál hérna eða voða lítið. Þetta eru lykilmál í samfélaginu, um börnin okkar og framtíðina. Hvernig er framtíðin hjá okkur? Er einhver framtíðarsýn í þessu fjárlagafrumvarpi? Ég sé hana ekki. Þetta er einhvern veginn svona: Þetta reddast fyrir horn.

Auðvitað þurfti að hjálpa fólki sem lenti í vandræðum út af hruninu. Formaður minn, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, fór mjög vel yfir það áðan hvað við hefðum viljað gera. Auðvitað hefðum við viljað hjálpa þeim sem voru verst staddir og áttu við mestu greiðslubyrði að glíma. Síðasta ríkisstjórn gerði það meðal annars, fór í svoleiðis aðgerðir. Það hefðum við viljað gera. Það er ekki svo stór hluti sem er í þannig stöðu. Við hefðum vel getað gert eitthvað svoleiðis en ekki farið að borga niður skuldir hjá fólki eins og einum kunningja mínum sem á íbúð í Reykjavík, skuldar í henni 9 milljónir, og fær skuldaleiðréttingu en eignin hans er metin á 64 milljónir. Það er þess vegna sem ég er á móti skuldaleiðréttingum. Það eru svo mörg svona dæmi. Ríkisstjórnin ætlar að borga niður skuldir fólks sem þarf ekkert á því að halda, ekki neitt. Það hefði verið hægt að nota þessa peninga í allt annað, eins og heilbrigðiskerfið og menntakerfið.

Menntakerfið er eitt af því sem ég hef verið að velta fyrir mér. Það er verið að skera niður í menntakerfinu. Það er verið að útiloka vissa hópa frá framhaldsskólakerfinu, 25 ára og eldri. Það er nokkuð sem ég hef miklar áhyggjur af. Hverjir eru það sem eru 25 ára og eldri og fara í framhaldsskóla? Það eru einmitt þeir sem komust ekki í skóla áður vegna slæmra félagslegra aðstæðna. Þetta er jafnvel fólk sem á minnst. Það fer í framhaldsskóla og vinnur með námi. Þessu fólki á bara að úthýsa. Hvaða stefnu erum við að taka í menntamálum? Fyrir mér er þetta stefna þar sem hinir hæfustu lifa, hinir geta átt sig.

Við erum með fullt af skólum sem taka til dæmis við svona nemendum. Ég er gott dæmi um það, ég fór í skóla þegar ég var 45 ára, ég fór í Keili. Ástandið á Suðurnesjum hefur oft verið til umræðu hér og það er engum blöðum um það að fletta að þar hefur verið gríðarlega erfitt, sérstaklega í Reykjanesbæ. Ég kem frá Grindavík sem er mjög vel staddur bær; við þurfum ekki að kvarta yfir því. En í öðrum bæjarfélögum, sérstaklega Reykjanesbæ og Sandgerði, hafa verið mjög erfiðir tímar. Það er mikil skuldsetning í samfélaginu.

Ég var skipaður í hóp á síðasta kjörtímabili af hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, sem þá var menntamálaráðherra, og við áttum að fara yfir það hvernig við gætum aukið menntun á Suðurnesjum. Við héldum marga fundi og þar var meðal annars talað um það að við gætum aukið starfsmenntun og styrkt skóla eins og Keili. Ég segi það fullum fetum að eitt það ánægjulegasta sem hefur gerst fyrir Suðurnesin var stofnun Keilis 2007. Hann er búinn að útskrifa á annað þúsund nemendur síðan þá. Ég var svo heppinn að vera í fyrsta hópnum. Maður hefur séð hvernig þessi skóli hefur dafnað. Svo stingur það svolítið í stúf núna að hann er eini skólinn sem er gert að spara 10 milljónir vegna aðhaldskröfu stjórnvalda þegar sambærilegir skólar, eins og Háskólinn á Bifröst og Verslunarskóli Íslands, þurfa þess ekki. Stjórnendur Keilis fóru ekki fram á mikið, þeir fóru fram á að þurfa ekki að spara þetta mikið og fá húsaleigusamning eins og Verslunarskólinn og Háskólinn á Bifröst. Það var ekki orðið við því.

Annar skóli á Suðurnesjum sem hefur líka komið vel út er Fisktækniskóli Íslands í Grindavík. Mér er skylt að tala um það. Ég ætla að vona, hæstv. forseti, að það sé allt í lagi að kjördæmapotast aðeins hérna. (Gripið fram í: … á því.) Já, hann hefur örugglega skilning á því. Þetta er skóli sem er búið að berjast við í 6–7 ár að koma á laggirnar. Þessir karlar, sem ég segi sem svo, þessir yndislegu karlmenn sem stjórna þessum skólum, Hjálmar Árnason, fyrrum þingmaður, og Ólafur Jón Arnbjörnsson, sem er með Fisktækniskólann, eru svo miklir eldhugar að það gustar af þeim, þeir hafa svo mikinn áhuga á skólamálum og að byggja upp skóla. Fisktækniskólinn er frábært dæmi um skóla sem getur gripið fólk sem á erfitt með bóknám. Hann er sveigjanlegur og gefur fólki algjörlega möguleika á því að fara á sínum hraða í gegnum námið og því er veitt sú aðstoð sem það þarf. Margir sem fara í þennan skóla hafa verið illa staddir námslega en náð sér á strik. Skólinn fær ekki þann þjónustusamning sem er búið að berjast fyrir. Hæstv. menntamálaráðherra lofaði því meira að segja að hann fengi brautargengi en það var ekki á fjárlögum, sem er mjög slæmt.

Það er eiginlega rannsóknarefni hversu oft Suðurnesin hafa verið höfð út undan í íslensku samfélagi. Það er merkilegt. Þess vegna er mjög ánægjulegt að í tillögum minni hlutans, sem við erum með sameiginlega, er áætlað að leggja 180 milljónir í Helguvík vegna hafnarinnar, sem er mjög gott mál. Þetta er ríkisstjórnin ekki að gera. Hún tekur aftur á móti 700 milljónir út úr Isavia, sem kemur kannski til með að hafa áhrif á Suðurnesjum vegna þess að þá peninga átti að nota í að byggja upp flugstöðina þar sem verður sífellt þrengra um farþega og aðra sem þangað koma. Auðvitað hefur maður skilning á því að það þurfi að byggja upp flugvelli úti á landi og laga þá.

(Forseti (EKG): Forseti vill nú spyrja hvort hv. þingmaður sé nokkuð að ljúka ræðu sinni þar sem ætlunin var að gera hér hálftíma hlé á milli hálfátta og átta.)

Ég geri allt sem herra forseti segir.

(Forseti (EKG): Þá gerum við hér hálftíma hlé. Ég skildi svar hv. þingmann svo að hann kysi að halda áfram ræðu sinni klukkan átta.)

Já.

(Forseti (EKG): Forseti mundi svo sem ekki sýta það ef hv. þingmaður greiddi fyrir þingstörfum með einhverjum öðrum hætti, en lítur ekki þannig á.) [Hlátur í þingsal.]

Við tökum bara hlé, herra forseti.

(Forseti (EKG): Fundinum er þá frestað í hálftíma. Hann byrjar aftur klukkan átta.)