144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:23]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður vorum að tala í morgun um þessa stöðu, læknaverkfallið og að þetta sé fyrsta skiptið sem læknar fara í verkfall á Íslandi. Síðan ég talaði við hann hef ég átt gott samtal við Ólaf Ólafsson, fyrrverandi landlækni til 25 ára, og hann gaf mér betri sýn inn í þetta mál allt saman og sagði mér að hérna áður fyrr hefðu um 80% af læknum komið aftur heim. Þeir fóru til útlanda í sérfræðinám og um 80% af þeim komu aftur heim. Núna koma miklu færri heim og þeir sem koma heim staldra yfirleitt mjög stutt við áður en þeir fara aftur út. Þetta er staðan í dag. Það er mikill atgervisflótti og við gætum lent í því að fara í neikvæðan spíral við að missa mannauðinn.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er hvort hann sé ekki sammála 90% landsmanna sem setja heilbrigðiskerfið í 1. eða 2. sætið í forgang yfir útdeilingu síns skattfjár, (Forseti hringir.) hvort heilbrigðiskerfið eigi ekki að vera í forgangi og hvort við eigum ekki að setja meira á fjárlögum í heilbrigðiskerfið almennt og tryggja að til séu peningar til að greiða læknum hærri laun þannig að við missum þá ekki úr landi eins og við stöndum frammi fyrir núna.