144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Það er nefnilega svo merkilegt að stjórn Ríkisútvarpsins sem nú situr er skipuð níu manns kosnum af Alþingi — þar af eru sex fulltrúar stjórnarflokkanna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þessu fyrirkomulagi var breytt af núverandi ríkisstjórn til að tryggja, getum við sagt, betri samskipti og traust milli þessarar lýðræðislegu samkomu hér, Alþingis, og stjórnar Ríkisútvarpsins.

Nú ber svo við að stjórn Ríkisútvarpsins er búin að álykta um málið og er að tala við sitt fólk hér á þingi í öllum flokkum nema Pírötum því að þeir fengu ekki að tilnefna fulltrúa í þessa stjórn. Mér er það alveg óskiljanlegt ef ekki á að hlusta á þessa stjórn sem beinlínis er skipuð með þessum hætti til að tryggja þessi góðu samskipti á milli.

Þetta er niðurstaða stjórnar og verkefnin eru mjög brýn. Þau snúast ekki bara um landsbyggðina, þau snúast um safn Ríkisútvarpsins, (Forseti hringir.) þau snúast um barnaefni og fleira. Ég held að við öll hér inni í öllum flokkum berum ákveðna ábyrgð og ættum að hlusta (Forseti hringir.) á þá fulltrúa sem við treystum og ættu að þekkja málið best.