144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir snarpa ræðu. Hann fló hátt og dró arnsúg í flugnum. Sannarlega fylltist ég lotningu og verð eiginlega að segja að hann tók jafnvel fram hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að því er varðar bókmenntaleg minni sem hann reisti í sinni góðu ræðu. Ég táraðist eiginlega þegar hann fór með orð nóbelsskáldsins um tilurð og upphaf hins æðsta söngs. Það var fallega gert hjá honum. Ég er algjörlega sammála því sem hv. þingmaður sagði um það að menn ættu kannski að vinna svolítið betur saman hér og vera sanngjarnari. Það gildir um okkur sem erum í stjórnarandstöðu og hjá ríkisstjórninni líka. Ég er algjörlega sammála því sem hv. þingmaður sagði að auðvitað eru allir að reyna sitt besta. Ég geri það líka.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann sérstaklega einnar spurningar. Hann talaði um að hann væri fýsandi þess að kaupa upplýsingarnar um skattaskjól sem töluvert hafa verið hér til umræðu. Mig langar til að spyrja hann: Er hann þeirrar skoðunar að þeir sem þar koma fram og hafa sannarlega brotið lög, að lögsækja eigi þá eða gefa þeim upp sakir (Forseti hringir.) eins og sums staðar hefur verið gert?